03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

137. mál, úrsögn Íslands úr alþjóðahvalveiðiráðinu

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur enn sem komið er ekki rætt þann möguleika að Ísland segi sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu enda tel ég fremur ólíklegt að sá kostur mundi bæta stöðu Íslands gagnvart öðrum þjóðum sem aðild eiga að ráðinu og láta sig vernd og stjórnun hvalastofnanna skipta.

Meginmarkmið okkar í þessu máli er að mínu mati að bæta við þekkingu okkar á nýtanlegum hvalastofnum hér við land og rannsaka almennt þau áhrif sem hvalir hafa á lífríki sjávar umhverfis landið. Að þessu ber að vinna á skipulegan hátt þannig að við verðum í betri aðstöðu til að móta af skynsemi framtíðarstefnuna í hvalveiðum okkar þegar sá tími kemur að Alþjóðahvalveiðiráðið skal endurmeta hvort veiðar í atvinnuskyni verði teknar upp á ný eða ekki. Samkvæmt ákvörðun ráðsins skal það gert ekki síðar en árið 1990.

Við höfum þegar kynnt sjónarmið okkar og rannsóknaráætlun fyrir Alþjóðahvalveiðiráðinu og farið í einu og öllu eftir gildandi reglum sem að þessu snúa. Ljóst er að innan ráðsins meðal hvalfriðunarríkja er mikil andstaða gegn hvers konar rannsóknum sem tengjast hvalveiðum á einn eða annan hátt. Sama er að segja um viðhorf til milliríkjaviðskipta með hvalaafurðir þann tíma sem veiðibann varir.

Á ársfundi ráðsins s.l. sumar var samþykkt að setja á fót sérstaka vinnunefnd á vegum ráðsins til að fjalla um og setja fram tillögur um málefni varðandi hvalveiðar í vísindaskyni fyrir næsta ársfund ráðsins sem haldinn verður í Malmö í Svíþjóð næsta sumar. Þá verður nauðsynlegt að ítreka afstöðu okkar til hvalveiða í vísindaskyni og kappkosta að vinna henni fylgi innan ráðsins eftir því sem unnt er. Ég tel rétt að sjá til hvað gerist á þeim fundi og vita hvað fram undan verður áður en við ræðum frekar um hugsanlega úrsögn úr ráðinu.

Varðandi seinna atriðið í fsp., um að Ísland beiti sér ásamt öðrum fyrir því að komið verði á fót nýrri alþjóðastofnun á þessu sviði, get ég verið stuttorður.

Alþjóðasáttmálinn um skipan hvalveiða, sem er frá árinu 1946, gekk í gildi hinn 10. nóv. 1948. Ísland tilkynnti þátttöku sína hinn 10. mars 1947 og hefur verið aðili að samningnum alla tíð frá gildistöku hans. Í 65. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna kemur fram að ríkin skuli starfa saman að verndun sjávarspendýra og skuli hvað hvali snertir einkum starfa á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana að verndun og stjórnun þeirra og rannsóknum á þeim.

Eins og staðan er núna virðist mér hugmynd um nýja alþjóðastofnun ekki tímabær. En auðvitað getur afstaðan breyst ef Alþjóðahvalveiðiráðinu mistekst ætlunarverk sitt. Það mun væntanlega koma í ljós á næstunni, ekki síst á ársfundinum 1986 í Malmö.