03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

139. mál, ákvarðanir um hollenskt herlið á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Hinn 19. júlí gaf utanrrn. út fréttatilkynningu þar sem fram kom að hollenskri hersveit hefði verið veitt varanleg aðstaða á Keflavíkurflugvelli. Í þessari hersveit er kafbátaleitarflugvél af gerðinni Orion P-3, áhöfn og viðgerðarlið, samtals um 30 manns. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem herlið annarrar þjóðar en Bandaríkjanna fær varanlega aðstöðu á Keflavíkurflugvelli, hernaðarumsvif í landinu eru ekki lengur í höndum Bandaríkjanna einna. Þessi ákvörðun vekur margvíslegar spurningar bæði um töku ákvörðunarinnar, afleiðingar hennar og þau stefnurök sem henni eru samfara. Ég hef á þremur þingskjölum borið fram fyrirspurnir um þessa þrjá aðgreindu þætti, formið, afleiðingarnar og stefnuna, og verða þær ræddar hér hver á eftir annarri.

Sú hin fyrsta felur í sér spurningar um hvenær beiðnin hafi borist frá hollenskum stjórnvöldum, hve oft hún hafi verið rædd á fundum ríkisstjórnarinnar og hvenær ríkisstjórnin formlega samþykkti þessa beiðni, hvenær hún hafi verið kynnt fyrir utanrmn., hvort það hafi verið áður en ákvörðunin var tekin og áður en hersveitin kom hingað því samkvæmt lögum á utanrmn. að vera ríkisstj. til ráðuneytis á sviði utanríkismála.

Þá er einnig spurt um hvort utanrrh. telji að hann, af þessu tagi án þess að formlegt samþykki, í fyrsta lagi ríkisstjórnar, í öðru lagi utanrmn. Alþingis og í þriðja lagi Alþingis sem heildar, liggi fyrir. Þessar spurningar munu væntanlega varpa ljósi á hvort hér er í íslenskri stjórnskipan alvarlegt gat - gat sem er þess eðlis að utanrrh., hver svo sem hann er, geti einn út af fyrir sig gjörsamlega stokkað upp bandaríska herliðið hér á landi með þeim hætti að herlið frá öllum öðrum þjóðum Atlantshafsbandalagsins, þar á meðal tyrkneskt herlið, grískt herlið, portúgalskt eða norskt, komi til landsins. Þannig sé hernum í raun og veru skipt út smátt og smátt í áföngum á þess að nokkur annar stjórnkerfisaðili komi þar við sögu en utanrrh. einn.