22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

33. mál, kennarastöður

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það kemur fram í svari hæstv. ráðh. að

réttindalausum kennurum við störf hefur fjölgað stórkostlega á nýbyrjuðu skólaári þar sem þeir eru

ekki fjarri því, sýnist mér, að vera um 40% af heildartölu réttindalausra sem eru starfandi á landinu

öllu. Ég tek það fram að mér er ljóst að í hópi þessara starfsmanna skólanna eru margir ágætismenn og

hæfir menn, en það breytir ekki hinu að það hlýtur að vera keppikefli yfirvalda menntamála í landinu

að tryggja að eingöngu starfsmenn með full réttindi ráðist þar til starfa.

Annað sem kemur fram í svari hæstv. ráðherra er það að hér hallar fyrst og fremst á

landsbyggðina. Reykjavík er aðeins með 13 réttindalausa menn í starfi af 441. Þetta er því mál sem

snertir byggðaþróun í landinu, jafnrétti þegnanna í landinu, barnanna í landinu.

Hæstv. ráðherra svaraði 3. lið fsp. nokkuð almennum orðum, en nefndi þó þar atriði sem ég geri

ráð fyrir að forveri hans í starfi, hafi hann lagt við hlustir, hafi hlustað á af nokkurri athygli, að efla

menntun kennara og Kennaraháskóla Íslands sérstaklega og að bæta kaup og kjör kennara. Þetta eru

hvort tveggja atriði sem hægt er að taka undir og það hefði sannarlega verið æskilegt að Sjálfstfl. og

hæstv. ríkisstj. hefðu á síðasta skólaári staðið að málum með þeim hætti sem hæstv. núv. menntmrh.

var að láta liggja að að nauðsynlegt væri til að tryggja skólanum starfskrafta með fullum réttindum. Og

ég er viss um að kennarastéttin í landinu á eftir að ganga eftir því við hæstv. núv. ráðherra hvernig hann

vilji koma þessum málum fram í ljósi orða sinna áðan.

Menntun kennara, störf kennara eru einhver þau þýðingarmestu sem unnin eru í landinu og það er

sjálfsagt mál að til kennara séu gerðar miklar kröfur, en þá á líka samfélagið að endurgjalda og meta

starfið í ljósi gildis þess fyrir samfélagið.