03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

140. mál, kostnaður vegna dvalar hollenskrar hersveitar á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni áðan hef ég kosið að skipta þessu máli í þrjá þætti. Var hinn fyrsti um form ákvörðunarinnar. Verður nú vikið að þætti númer tvö, afleiðingum hennar hvað snertir réttarstöðu og almenna stöðu hins hollenska herliðs hér á landi.

Sá varnarsamningur sem gerður var milli Íslands og Bandaríkjanna um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess tekur greinilega mið af því að hér verði eingöngu herlið einnar þjóðar, þ.e. bandarísku þjóðarinnar, og bandarísk stjórnvöld og bandarísk hernaðaryfirvöld séu þeir aðilar sem fari með þau mál gagnvart Íslendingum. Það er að vísu rétt að gert er ráð fyrir að fulltrúar annarra þjóða geti komið þar inn. Það vekur hins vegar miklu fleiri spurningar en svarað er í sjálfum samningnum.

Ég hef þess vegna kosið að fá fram af hálfu hæstv. utanrrh. svör, sem væntanlega verða eins skýr og áður, við ýmsum veigamiklum þáttum sem snerta þetta mál. Það er í fyrsta lagi: Hver greiðir fæðis- og húsnæðiskostnað vegna dvalar hollenskrar hersveitar á Keflavíkurflugvelli og hver tekur við þeim greiðslum? Hver greiðir eldsneytiskostnað vegna hollensku flugvélarinnar og þær viðgerðir sem hér fara fram og hver tekur við þeim greiðslum? Þessar spurningar miða að því að fá fram hvort hollenska hersveitin er hér algjörlega á vegum Bandaríkjanna sem greiði allan kostnað hollensku hermannanna, hvort sem það er dvalarstaður eða fæðiskostnaður, hvort sem það er kjöt eða fiskur eða eitthvað annað sem þeir borða, og kostnaðinn við hersveitina sjálfa eða hvort hollenska ríkið kemur þar að einhverju leyti við sögu eða önnur ríki Atlantshafsbandalagsins.

Í næstu spurningum er vikið að því hvaða rétt hollenskir hermenn hafa til að nota þá aðstöðu sem Bandaríkin hafa komið sér upp á Keflavíkurflugvelli fyrir bandaríska hermenn, bæði þjónustustöðvar, verslanir, skemmtistaði og annað, og hver sé réttarstaða hollensku hermannanna og Íslendinga sem við þá þurfa að eiga samskipti, t.d. hvað snertir kröfur um skaðabætur vegna tjóns á eignum, lífi eða limum manna og dómsmál og kærur sem kunna að rísa. Ég vek í þessu samhengi athygli á því að í fréttatilkynningu ráðuneytisins er vísað í 11. gr. viðbætis varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna. Í þeirri grein er vikið að þeim greinum sem á undan fara í þeim viðbæti, en það er ekki þannig tekið til í 12. gr. þar sem vikið er að kröfum um skaðabætur, dómsmál og kærur sem kunna að rísa vegna dvalar hollensku hermannanna hér.

Að lokum, herra forseti, er borin fram spurning um hver fari með lögsögu yfir hollensku hermönnunum meðan þeir eru hér á landi og hvort utanrrh. skilji í reynd þann gjörning, sem hér hefur orðið, svo að búið sé að gera eins konar varnarsamning milli Íslands og Hollands á líkan hátt og gerður var milli Íslands og Bandaríkjanna, þegar litið er á þjóðerni þeirra hermanna sem hér eru.