03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

141. mál, röksemdir fyrir hollenskri hersveit á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Þau svör sem hæstv. utanrrh. veitti sýna greinilega að hernaðarleg rök liggja að baki því að hollenska hersveitin er staðsett hér á landi. Það sem meira er: Það kemur fram að Bandaríkin hafa verið sérstakur áhugaaðili um að þessi hersveit, og kannske fleiri, tæki upp fast aðsetur hér á landi vegna kröfunnar, eins og utanrrh. orðaði það, um samræmingu og samhæfingu heraflans innan Atlantshafsbandalagsins.

Þar með er líka brotið í blað í hernaðarsögu Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk stjórnvöld ganga formlega með þessum hætti inn á þá braut að þau eigi, og Ísland þar með, að gerast aðili á víðtækum grundvelli að samhæfingu og samræmingu hernaðarkerfis Atlantshafsbandalagsins í heild sinni. Þar með er haldið inn á nýjar brautir sem geta eðli málsins samkvæmt, út frá nákvæmlega sömu rökum og hæstv. utanrrh. vitnaði til hér, haft í för með sér að fram komi óskir frá öðrum ríkjum á næstu misserum eða árum um að þeirra hersveitir fái líka hér aðsetur til að auka enn frekar samræminguna og samhæfinguna, svo að notuð séu þau rök sem hæstv. utanrrh. vék að áðan og sem hann notaði bæði til að rökstyðja beiðni Hollendinga og, og var það ekki síður athyglisvert, til að rökstyðja hvers vegna hann féllst á þessa beiðni af hálfu Íslands. Þar með hefur hæstv. utanrrh., án þess að Alþingi hafi formlega fjallað um málið, án þess að utanrmn. Alþingis hafi formlega fjallað um málið, stigið það skref að Íslendingar eigi með nýjum hætti að fara að taka þátt í samræmingu og samhæfingu hernaðarkerfis Atlantshafsbandalagsins. Ég tel það algjörlega út úr öllu korti að slíkt skref sé stigið án þess að utanrmn. Alþingis og Alþingi fjalli með formlegum hætti um málið. Ég hefði satt að segja vænst þess að formaður utanrmn. tæki hlutverk sitt alvarlegar en svo að láta jafnveigamikið atriði og þetta fara fram hjá nefndinni.

Að lokum, herra forseti, vek ég athygli á því að hæstv. utanrrh. svaraði því ekki skýrt hvort sú Orionflugvél sem hér er tilheyrði þeim Orion-flugvélaflota sem Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin gerðu kröfu um að yrðu hluti af kjarnorkuhernaðarkerfi Atlantshafsbandalagsins en Hollendingar neituðu. Svar utanrrh. gaf hins vegar fyllilega til kynna að þessi flugvél, sem hér væri, hefði verið hluti af þeim Orionflota sem Bandaríkin og NATO gerðu kröfu til að Hollendingar settu inn í kjarnorkuvopnakerfi NATO en sem neitað var.

Herra forseti. Það er tvennt sem þarf að fást skýrar fram að lokinni þessari umræðu. Annars vegar ítreka ég í þriðja sinn ósk mína til hæstv. utanrrh. um að hann leggi hið formlega samkomulag fram á þeim vettvangi þar sem þjóðin öll getur fengið að sjá það. Í öðru lagi þarf að fá nánari upplýsingar um það frá Hollandi til hvaða herafla Hollands þessi flugvél og flugsveit hennar teljast sérstaklega, svo hægt sé að fá botn í málið hvað snertir tengsl við kröfur NATO og Bandaríkjanna um kjarnorkuherafla Hollands.