03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

141. mál, röksemdir fyrir hollenskri hersveit á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég vil einnig bjóða hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson velkominn til landsins. Blöð hafa greint frá því að hann var í síðustu viku í Kaupmannahöfn að ræða þar um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Hann hefur greinilega haft jákvæðari afstöðu í þeim málum en formaður Alþfl.

Ég vænti þess að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem mjög hefur sóst eftir því að vera formaður í utanrmn., eins og alþjóð veit, taki hlutverk nefndarinnar alvarlegar en svo að hann telji það nægilega umfjöllun um jafnveigamikið mál, þegar herlið frá öðru ríki fær í fyrsta sinn varanlegt aðsetur á Íslandi, að það sé nóg að fjalla um það mál á rölti um Keflavíkurflugvöll en það sé ekki formlega tekið fyrir á fundum utanrmn., þar sem nefndin er formlegur aðili, fulltrúi Alþingis og samkvæmt lögum ráðgjafaraðili gagnvart stjórnvöldum fjallar um málið með allri þeirri virðingu og öllu því formi sem sæmir utanrmn. Alþingis. Vona ég að Rockall-málið verði ekki líka afgreitt á rölti nefndarinnar eða á kænum þar sem menn veltast í ólgunnar sjó, heldur að formaðurinn sýni fulla vigt í meðferð mála af þessu tagi og játi einfaldlega að eðlilegra hefði verið að nefndin fjallaði um málið með formlegum hætti en sé ekki að afsaka það hér eins og hann gerði áðan.