03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

141. mál, röksemdir fyrir hollenskri hersveit á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég hef greint frá því samkomulagi sem er á milli Hollendinga og okkar um að þeir undirgangist sömu réttindi og skyldur og Bandaríkjamenn hafa samkvæmt varnarsamningnum og það er efni þeirra bréfaskipta sem hafa átt sér stað á milli okkar utanrrh. Hollands.

Ég vek athygli á að þetta samkomulag er uppsegjanlegt hvenær sem er. Við getum látið þessa hollensku sveit fara hvenær sem er án sérstaks uppsagnarfrests þannig að hér er ekki um fasta og óendanlega aðstöðu að ræða í Keflavík. En ég tel það ekkert feimnismál að það sé í þágu okkar Íslendinga að þjóðir Atlantshafsbandalagsins vinni saman. Við vitum að héðan frá Íslandi fer fram ákveðið eftirlit og það eftirlit er í þágu varna okkar, í þágu sjálfstæðis okkar og sjálfsákvörðunarréttar. Það fer vel á því að bandalagsþjóðir vinni saman að slíku verkefni.

Það er ljóst eftir minni enskukunnáttu að „integral part of the US Forces“ þýðir órjúfanlegur hluti af ameríska varnarliðinu eða óskiptanlegur hluti af ameríska varnarliðinu. Í því felst að þessi hollenska liðsveit tekur á sig sömu skuldbindingar og hefur sömu réttindi og Bandaríkjamenn.

Spurningunni um hvort formlega hafi verið frá þessu gengið í utanrmn. vil ég svara með því að segja að þetta hefur ekki verið neitt leyndarmál. Það hefur öllum mönnum fundist þetta ósköp eðlilegt fyrirkomulag þar til hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson vekur máls á þessu núna eftir dúk og disk. Er hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson svo mikill aðdáandi Bandaríkjamanna að hann geti ekki hugsað sér að aðrir séu hér á landi en Bandaríkjamenn? Maður skyldi ætla að svo væri. Það eru aftur á móti margir sömu skoðunar og hann, að varnarliðið sé óþarft hér á landi, sem hefðu heldur kosið að Evrópuþjóðir ættu hlut að varnarhlutverki á Íslandi. Ég sé ekkert nema gott við að við tengjumst einnig böndum austur yfir haf og vestur yfir haf til að gæta varðstöðu þeirrar sem okkur Íslendingum er svo nauðsynleg - varðstöðu sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson bersýnilega telur lítilvæga en umhverfi og þróun mála sýnir þó vel hve nauðsynleg er.