03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

156. mál, launamál kvenna

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Tilefni þeirrar fsp. sem hér er fram borin um launamál kvenna ætti öllum að vera augljóst. Á undanförnum rúmum tveimur áratugum hefur Alþingi reynt að stuðla að því með setningu löggjafar um launajöfnuð kynjanna að þau mannréttindi sem launajafnrétti kynjanna er væru virt í samfélaginu. Í því sambandi má benda á lög um launajöfnuð kvenna og karla frá 1961, lög um jafnlaunaráð frá 1973, fullgildingu á alþjóðasamþykkt um jöfn laun kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf, lög um jafnrétti kvenna og karla frá 1975 og ný lög, sett á þessu ári, um jafnan rétt kvenna og karla. Þrátt fyrir þessar lagasetningar og samþykktir gefa allar kannanir ótvíræða vísbendingu um að langt sé í land að launajafnrétti kynjanna sé virt í reynd. Þegar svo er komið að lög um launajafnrétti kynjanna eru þverbrotin í þjóðfélaginu þrátt fyrir að nær 25 ár séu liðin síðan Alþingi samþykkti lög um launajafnrétti kynjanna ber Alþingi skylda til að grípa í taumana og leita leiða til að fá þessi lög virt í samfélaginu.

Fyrir liggur í þeim könnunum sem gerðar hafa verið að launajafnrétti kynjanna er að öllu jöfnu hvorki virt á almenna vinnumarkaðnum né hjá hinu opinbera. Það er ljóst af lögum sem sett hafa verið til að ná fram launajafnrétti kynjanna að stjórnvöldum ber skylda til bæði að framfylgja lögunum gagnvart starfsmönnum sem starfa hjá hinu opinbera sem og stuðla að því og hafa með því virkt eftirlit að lögin séu virt á hinum almenna vinnumarkaði.

Með þeirri fsp. sem hér er lögð fram er leitað eftir því hvort stjórnvöld séu reiðubúin að sinna þeirri skyldu sinni að hafa mikilvægt frumkvæði í því að virða lög um launajafnrétti kynjanna. Það væri tvímælalaust árangursríkasta leiðin sem áhrif mundi hafa yfir á almenna vinnumarkaðinn og gæti því orðið mikilvægur áfangi til að ná fram launajafnrétti í reynd í þjóðfélaginu. Því er þessi fsp. fram borin sem fram kemur á þskj. 170. Tímans vegna tel ég ekki ástæðu til að lesa upp þá fsp. sem ég ber fram til hæstv. fjmrh. og er í tveimur liðum.