03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

156. mál, launamál kvenna

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Ég verð þó að segja að þau valda mér vonbrigðum. Hæstv. fjmrh. lýsir því yfir og viðurkennir að það þurfi úrbætur en þó ljóst sé og allar kannanir staðfesti að lögin um launajafnrétti kynjanna séu þverbrotin í þjóðfélaginu er hann engu að síður ekki reiðubúinn að lýsa því yfir að hann sé við gerð næstu kjarasamninga tilbúinn til þess að beita sér fyrir að leiðréttur verði sérstaklega sá launamismunur sem ríkir milli kynjanna fyrir sömu og sambærileg störf.

Ég vil benda hæstv. fjmrh. á að í borgarstjórn Reykjavíkur hefur verið stigið ákveðið skref og þar hefur verið samþykkt tillaga þess efnis að borgarstjórnin beini því til Starfsmannafélags Reykjavíkur og samningsaðila að könnuð verði sérstaklega fyrir gerð næstu sérkjarasamninga röðun þeirra starfsheita í launaflokka sem konur skipa meiri hluta í og þetta verði borið saman við röðun annarra starfsheita og að þessi könnun verði lögð til grundvallar við gerð næstu kjarasamninga.

Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að hæstv. fjmrh. sé ekki með sama hætti tilbúinn til þess að beita sér fyrir að auðvelda það að komið verði á launajafnrétti og að sú könnun verði gerð sem ég hef sett fram í lið 2 a og b. Það var svo, hæstv. fjmrh., að á árinu 1983 voru lagðar fram upplýsingar hér á Alþingi þar sem skýrt kom í ljós að að því er varðar bílastyrki og fasta yfirvinnu var um mikinn launamismun kynjanna að ræða. Þar kom fram að 92% af þeirri upphæð sem ríkið greiðir í fasta yfirvinnu renni til karla en aðeins 8% til kvenna og 95% þeirrar upphæðar sem fer í bílastyrki fer til karla en einungis 5% til kvenna. Ég tel að þessar tölur gefi glögga vísbendingu um það að líka hjá hinu opinbera, hjá ríkinu, ríkir mikill launamismunur og að ríkið jafnt sem hinn almenni vinnumarkaður brjóti lögin um launajafnrétti kynjanna.

Ég ítreka það enn við hæstv. fjmrh. hvort hann sé ekki tilbúinn að leggja þau gögn sem ég hef lýst, t.d. varðandi bílastyrki, fasta yfirvinnu og könnun á launaflokkaröðun, til grundvallar við næstu kjarasamningagerð.

Ég verð að segja að mér fannst hæstv. ráðherra reyna að koma sér hjá að svara þeirri fsp. sem lögð hefur verið fram um mikilvægt málefni sem snertir launakjör kvenna á vinnumarkaðinum og mikið hefur verið rætt um í þjóðfélaginu. En ég tel að hæstv. fjmrh., sem ber ábyrgð á kjarasamningagerð hjá ríkinu, geti ekki komið sér hjá því að svara svo mikilvægu atriði sem snertir launakjör kvenna. Þess vegna vil ég ítreka það hvort hæstv. fjmrh. geti ekki gefið skýrari svör en fram komu í máli hans áðan við fsp. sem hér hefur verið lögð fram.