03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

156. mál, launamál kvenna

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í svari mínu við 2. tölul. fsp. kom alveg skýrt fram að fjmrn. hefur látið viðsemjendum sínum í té ítarlega greiningu á launum ríkisstarfsmanna, þar á meðal yfirlit yfir starfstengdar greiðslur af ýmsu tagi og þær hafa verið flokkaðar eftir félögum og einnig eftir kynjum. Og farið hafa fram viðræður um þessi efni vegna starfsgreiningar fyrir árið 1985 og þess er að vænta að þær upplýsingar sem leitað verður eftir um þessi atriði geti legið fyrir við samningsgerðina. Þetta kom mjög skýrt fram í mínu svari og ég vænti þess að svo muni verða þegar gengið verður til kjarasamninga.

Það er hins vegar deginum ljósara að löggjöf og kjarasamningar sem byggja á þeirri grundvallarreglu að konur og karlar hafi sömu laun fyrir sambærileg störf hafa ekki enn tryggt að svo sé í raun. Þessar fsp. lúta að gerð kjarasamninga og auðvitað er af hálfu beggja samningsaðila unnið út frá því grundvallarviðhorfi að kjarasamningarnir brjóti ekki í bága við þetta meginsjónarmið.

Það er hins vegar svo að kjarasamningar fara fram beint á milli samningsaðila og yfirlýsingar í þeim efnum eru gefnar við samningaborðið. Þar taka menn til meðferðar kröfur og gagnkröfur og alveg er ljóst að samningar um kaup og kjör verða ekki gerðir hér á hinu háa Alþingi. En fyrir mitt leyti er það alveg ljóst að áfram verður haldið að veita þær upplýsingar sem hér er vikið að og ég vænti þess að samningsaðilar beggja megin við samningaborðið geti nýtt þær í þeim viðræðum sem fyrir dyrum standa. Það er ekki ágreiningur á milli mín og hv. fyrirspyrjanda um að mikið verk er óunnið í því efni að tryggja að konur fái almennt sömu laun fyrir sambærileg störf og karlar.