03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

156. mál, launamál kvenna

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 2. landsk. þm., hv. fyrirspyrjanda, er rétt að taka það fram að 2. tölul. fsp. lýtur að upplýsingaöflun fyrst og fremst. Hv. 3. landsk. þm. sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með mitt svar, sérstaklega að því er varðar 1. lið fsp. Í þessu efni verða menn að gera greinarmun á kjarasamningum og svo ráðningarsamningum. Kjarasamningar í öllum atriðum byggja á því grundvallarviðhorfi að jafnræði ríki á milli karla og kvenna. Það er miklu fremur í ráðningarsamningum sem það misrétti sem við erum sammála um að eigi sér stað hefur komið fram. Það er vegna þess að menn ráða í störf á þann veg að misréttið birtist. Þessar aðgerðir, sem við erum sammála um að þurfi að vinna að til þess að jöfnuður náist, eiga þess vegna fyrst og fremst við þegar verið er að ráða menn í störf hjá hinu opinbera og hjá einkafyrirtækjum. Það hefur sem sagt komið í ljós að þrátt fyrir ákvæði kjarasamninga hefur þetta jafnrétti ekki náðst. Við þurfum þess vegna fyrst og fremst að vinna að þessu verki við gerð ráðningarsamninga við þá sem ráðnir eru til starfa hjá ríkinu, þar á meðal að ráða konur í ríkari mæli en verið hefur til þeirra trúnaðarstarfa sem greidd eru fyrir hærri laun og valdið hafa því misrétti sem í raun er á vegna þess að karlar hafa í ríkari mæli en konur ráðist til þeirra.