03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

Umferðamál

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að vekja athygli á nokkurra vikna gamalli skýrslu frá embætti landlæknis um slys á börnum og unglingum á Íslandi þar sem koma fram svo alvarlegar upplýsingar að þær mega ekki í þagnargildi liggja, jafnframt því sem ég beini því til hæstv. heilbrrh. hverjar aðgerðir stjórnvöld kunni að hafa á döfinni, ef einhverjar, í þessu efnum.

Í þessari skýrslu landlæknis, sem ber fyrirsögnina Barna- og unglingaslys á Íslandi og er dags. í sept. 1985, kemur fram:

1. Slysatíðni barna og unglinga, einkum drengja, á Íslandi er með því hæsta sem gerist í heiminum.

2. Rúmur helmingur þeirra sem slösuðust í umferð á höfuðborgarsvæðinu árið 1979 - sem nefnt er í þessari skýrslu og ég geri ekki ráð fyrir að það hafi breyst síðan - voru yngri en 20 ára, rúmur helmingur.

3. Unglingum á aldrinum 15-19 ára er 4-5 sinnum hættara við slysi í umferð en þeim sem eru eldri en 25 ára.

4. Í framhaldsskóla þar sem eru 500 piltar og 500 stúlkur má gera ráð fyrir að árlega slasist 20-25 piltar og 10-12 stúlkur, sum lífshættulega.

5. Um 65% allra höfuðslysa í umferð verða á börnum 14 ára og yngri.

6. Um 30% af börnum á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 0-4 ára koma á slysadeild Borgarspítalans árlega vegna slysa í heimahúsum. Fjöldi barna á þessum aldri er um 8% af íbúafjöldanum og langalgengasta orsökin er eitranir. Þetta mun vera hæsta slysatíðni á börnum á aldrinum 0-4 ára sem þekkist í Evrópu, segir landlæknir í skýrslu sinni.

7. Varðandi umferðarslysin kemur fram í skýrslu landlæknis að tíðni slysa á gangandi vegfarendum er langhæst meðal barna og unglinga.

Síðan segir landlæknir orðrétt í skýrslu sinni: „Hvað snertir manntjón má að nokkru líkja umferðarslysunum við berklafaraldurinn er gekk hér yfir fyrr á öldinni.“

Þegar einn af æðstu yfirmönnum heilbrigðismála á Íslandi viðhefur þau orð um slysatíðnina og slysafaraldurinn - því að faraldur er þetta og annað ekki - á börnum og unglingum í íslensku þjóðfélagi er um svo alvarleg ummæli að ræða að það hlýtur að krefjast nánari athugunar og rannsóknar. Það er ljóst að slysarannsóknir eru ákaflega vanmáttugar hér, vanþróaðar, því miður.

Þær upplýsingar sem fram hafa komið í þessari skýrslu landlæknis eru þess eðlis að þær krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda, af hálfu heilbrigðisyfirvalda, og því er vakið máls á þessu mjög svo alvarlega máli í sölum Alþingis. Það hefur verið hljótt um þessa skýrslu, allt of hljótt, og ég ítreka fyrirspurn mína til hæstv. heilbrrh.: Hverjar aðgerðir eru á döfinni á vegum stjórnvalda til að beina okkur af þeim brautum sem við virðumst vera á?