03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

Umferðamál

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér er vakið máls á mjög mikilvægu efni. Rétt um það leyti sem ráðherraskipti urðu barst forvera mínum sú skýrsla sem hér er rætt um og hefur sannarlega að geyma geigvænlegar upplýsingar.

Íslendingar hafa vissulega sinnt heilsuvernd allvel og standa t.d. í fararbroddi annarra vestrænna þjóða á sviði varna gegn farsóttum, hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameini. Slysavörnum hefur einnig verið sinnt í vaxandi mæli, t.d. á sjó, en síður aftur á móti varðandi slysin á landi. Það kemur undarlega fyrir sjónir hvernig staðreyndir eru í því efni. Á sama tíma og barna- og unglingaslysum hefur fækkað á öðrum Norðurlöndum hefur þeim fjölgað hér á landi og tíðnin nú hæst á Íslandi. Þær upplýsingar eru sóttar í Norrænu tölfræðihandbókina. Og því er eðlilegt að spurt sé: Hvers vegna er málum svo komið? Svo virðist sem aðalorsökin sé sú að aðferðir okkar hér á landi hafi ekki tekið í jafnríkum mæli mið af niðurstöðum slysarannsókna og gert hefur verið hjá nágrannaþjóðum, og þess vegna e.t.v. verða aðgerðir okkar ekki nægilega markvissar.

Nokkur dæmi skulu hér nefnd um barnaslys. Samkvæmt slysarannsóknum landlæknisembættisins kemur í ljós að nálægt 70% barna á aldrinum 6-14 ára sem slasast eru að leik, þegar slysið verður, nálægt heimilum sínum og hlaupa skyndilega og án fyrirvara út á akbrautir eða í veg fyrir ökutæki á biðstöðvum strætisvagna. Nærtækasta ráðið til úrbóta í þessu virðist vera að beita mun meiri hraðatakmörkunum í íbúðarhverfum en gert hefur verið til þessa. Um þetta hefur ráðuneytið samband víð sveitarfélög, en þau hafa þessi mál í sínum höndum. Og það er ljóst að líka verður að efla eftirlit lögreglu af þessum ástæðum. Höfuðslys eru algeng meðal barna 14 ára og yngri, en mörg barnanna slasast á reiðhjólum. Um 40% allra er koma til aðgerða á taugaskurðdeild Borgarspítalans vegna umferðarslysa eru börn 14 ára og yngri. Eitt ráð til úrbóta gæti verið það sem sums staðar tíðkast, að börnum sem ferðast á reiðhjólum er gert það að skyldu að bera létta plasthjálma. Við þá ráðstöfun hefur orðið þar veruleg fækkun á höfuðslysum.

Um heimaslys er þetta að segja. Um 30% af 0-4 ára börnum á höfuðborgarsvæðinu koma á slysadeild Borgarspítalans árlega vegna slysa í heimahúsum, 30% barna í þessum aldursflokki. Þetta er til muna hærri tala en í nágrannalöndum. Hér hefur verið töluverð upplýsingastarfsemi rekin um slysavalda í heimahúsum. Þar er stuðst m.a. við rannsóknir landlæknisembættisins á heimaslysum og afleiðingum þeirra. Í febrúar 1986 verður bæklingur um hættur í heimahúsum sendur á öll fjölskylduheimili í landinu. Slysavarnafélag Íslands mun aðstoða við það.

Að því er unglinga varðar er rúmur helmingur þeirra sem slasast í umferð á höfuðborgarsvæðinu yngri en 20 ára. Unglingum á aldrinum 15-20 ára er 4-5 sinnum hættara við meiðslum eða dauða vegna slysa í umferð en fólki 25 ára og eldra. Og það einkennilega er að á sama tíma og umferðarslysum fólks á þessum aldri hefur fækkað í Danmörku úr 1338 í 585 á hverja 100 þús. íbúa hefur þeim fjölgað á Íslandi úr 677 í 977. Þetta er vegið meðaltal frá Norðurlöndum. Mestur munurinn er þarna á milli Danmerkur og Íslands.

Komið hefur fram hugmynd af hálfu landlæknisembættis um að efla til muna ökukennslu unglinga. Virðist einsýnt að það sé nauðsynlegt að gera. Haft hefur verið samband við menntmrn. af þessum ástæðum og spurst fyrir um hvort unnt sé að gera eitthvað í skólakerfinu að þessu leyti til. Verulegar athuganir hafa verið gerðar á slysavöldum og orsökum slysa af landlæknisembættinu í samráði við lögreglu Reykjavíkur og slysadeild Borgarspítalans. Unnið verður að því að kynna þessar niðurstöður og koma þeim í aðgengilegt form til fræðslu. Það er ljóst að nægilegar upplýsingar liggja fyrir til að gera ráðstafanir til að fækka slysum. Það þarf að halda áfram að standa vel að rannsóknum á orsökum slysa, sérstaklega hvað varðar slys í skólum, dauðaslys í umferð og íþróttaslys. Skráningu slysa hér á landi er ábótavant og þyrfti að stuðla að því að betur verði unnt að standa að slíkum rannsóknum.

Eitt var það enn mikilvægt sem ég ætlaði að nefna, en það verður að bíða betri tíma vegna fyrirkomulags umræðu. Ég tel mjög gott að vakið var máls á þessu atriði og ég þakka fyrir að hafa haft tækifæri til að koma að þessum upplýsingum sem ég hygg að við verðum að taka mið af.