03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

Umferðamál

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega fagna þessari yfirlýsingu hæstv. trmrh. varðandi plasthjálmana og börn á reiðhjólum. Svo háttar nú að frv. til nýrra umferðarlaga er til meðferðar í allshn. Ed. og ein af nokkur hundruð ábendingum, sem borist hafa við frv., er einmitt í þessa átt. Það er einfalt mál og afar auðvelt að koma því áfram ef Alþingi fæst til að afgreiða þessi lög á þessu ári sem ég vona að verði. Ég vona sannarlega að þegar kemur að því að greiða atkvæði á Alþingi um það hvort skylda skuli notkun þessara hjálma á reiðhjólum hafi alþingismenn til að bera meiri víðsýni og skilning á slysavörnum en þeir hafa haft þegar komið hafa hér til umræðu frv. sem hafa miðað að því að gera notkun bílbelta virka sem er ein ódýrasta slysavörn sem hægt er að hugsa sér.