03.12.1985
Sameinað þing: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér er það ánægja að votta það að hv. 5. þm. Austurl. hefur sagt satt frá hér í ræðustól, að nefndin hefur ekki annað afrekað en að kjósa sér formann. Hitt er jafnvíst að nefndin mun skila til þingsins öllum þeim þáltill. sem til hennar hefur verið vísað til þessa. Það er ekki þar með sagt að lagt verði til að þær verði allar samþykktar. Hitt kemur og til greina að fella þáltill. að sjálfsögðu. En stór hluti tillagna, sem áður fór til allshn., fer nú til félmn. og við skulum vona að sú breyting verði til bóta. Hitt er svo annað mál að það er ekki nýtt að nefndir hagi þannig sínum vinnubrögðum að framan af vetri, meðan sumir nefndarmanna hafa verið nokkuð uppteknir, sé safnað dálítið í sarpinn og svo sé farið að vinna af meiri þrótti í þeim málum. Það hefur hver sitt vinnulag í þessum efnum og við munum að sjálfsögðu taka við athugasemdum frá forseta þingsins eða forsetum eftir því hvað við á.