03.12.1985
Sameinað þing: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir góðar undirtektir við athugasemdir mínar varðandi starfsleysi hv. allshn. og vona að eftir gangi og treysti því. Þau iðrunarmerki, sem sjá mátti á formanni nefndarinnar hér í ræðustóli áðan og heyra, eru væntanlega einnig vottur um það að þar verði tekið á með öðrum hætti en verið hefur það sem af er þingtímanum.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson talaði um verklag og vinnulag, hver hefði sitt vinnulag. Mér er það vissulega til efs að öllum hv. nm. í allshn. falli það vinnulag sem formaðurinn virðist ætla að viðhafa að því er starf nefndarinnar til þessa ber vott um. En ég treysti því einnig að þar verði bót á, bendi hins vegar á að nú dregur að jólum og það er kannske ekki allra heppilegasti tími fyrir þm. að beita sér að nefndarstörfum þegar fundaannir aukast hér á Alþingi. Einnig hefði verið æskilegt, eins og tíðkað er, að taka mál fyrir og senda til umsagnar þau sem réttmætt er talið að senda út og gefa þannig aðilum utan þings möguleika á að segja sitt orð um þau mál sem hér eru á dagskrá. En ég vænti þess að á þessu verði ráðin bót og ég mun fylgjast með því að eftir gangi það sem hv. formaður allshn. mælti hér úr ræðustól, að öll mál, sem til nefndarinnar yrði vísað, muni koma fram hér í þinginu til afgreiðslu.