03.12.1985
Sameinað þing: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það skal tekið fram, sem raunar er óþarfi að leggja frekari áherslu á, að forsetar ætla sér að vinna að þessum málum, sem hér hafa verið til umræðu, í þeim anda sem þingsköp gera ráð fyrir. Það hefur verið skipað fyrir um fastan fundartíma þingnefnda og það verður fylgst með störfum þingnefnda.

Hv. 7. þm. Reykv. bar fram ósk um að forsetar létu í té til þm. upplýsingar um stöðu mála. Það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess og gert er ráð fyrir að þingflokkarnir fái vikulega allar upplýsingar um þessi mál. Að sjálfsögðu verða slíkar upplýsingar ekki tíundaðar á þingfundum eða lagðar fram sem þingskjöl, en allt á öllum að vera ljóst í þessu efni.