03.12.1985
Sameinað þing: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

92. mál, vistunarvandi öryrkja

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 102 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um vistunarvanda öryrkja ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur, Guðrúnu Helgadóttur og Kristínu S. Kvaran. Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því að leysa vandamál þeirra öryrkja sem eiga sakir andlegrar og líkamlegrar fötlunar örðugt um vistun á þeim stofnunum sem fyrir eru. Helst yrði um að ræða að efla stuðning við hjúkrun í heimabyggð eða stofnun sérdeildar við ríkisspítala.“

Í grg. með þessari till. er þetta mál nokkuð rakið, þ.e. sú raunasaga sem af till. er og meðferð hennar hér á Alþingi, en till. var áður flutt á þinginu 1983 og grg. sem henni fylgdi er hér prentuð og ég sé ekki ástæðu til þess að rekja hana út af fyrir sig. Ég bendi aðeins á að sá vandi sem hér er um að ræða snertir aðeins u.þ.b. tíu einstaklinga sem erfiðast er að vista við eðlilegar aðstæður eftir slys eða önnur áföll og eiga í raun og veru hvergi heima á stofnunum þeim sem fyrir eru eins og þær eru nú í stakk búnar. Ég rek aðeins í örstuttu máli að þannig fóru leikar að meiri hluti allshn. Sþ. lagði til að málinu yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá svohljóðandi, með leyfi forseta:

"„Í trausti þess að heilbr.- og trmrn. og félmrn. taki á þessu máli í samræmi við þá samþykkt stjórnarnefndar að stofna beri sérstaka sjúkradeild til vistunar og þjálfunar þeirra sem vegna slysa hafa fatlast svo andlega að jafna megi til meðfæddrar þroskaskerðingar, að staðið verði við fyrirheit um fjárframlag úr Framkvæmdasjóði fatlaðra svo að markmiði ályktunarinnar verði náð á þessu ári, telur Alþingi að ekki sé þörf á samþykkt þessarar tillögu og samþykkir að taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Á þetta féllst meiri hluti Alþingis, en þá þegar var raunar ljóst að ekki mundi svo úr rætast sem þarna er vísað til.

Af svörum heilbrrh. í fyrra í fyrirspurn frá tveim flm." - hv. 10. landsk. þm. Guðrúnu Helgadóttur og mér - „kom enda í ljós að enn voru öll þessi mál óleyst og þar hefur engin breyting orðið á. Nýlegir vistunarerfiðleikar og ástand þessa máls í heild knýr hins vegar á af ofurþunga og því er óhjákvæmilegt að hreyfa þessu máli á nýjan leik og gera tilraun til þess að koma málinu í sem farsælastan farveg og það sem fyrst.“

Það þarf máske ekki að hafa svo mörg orð um þessa till. utan það sem grg. gefur til kynna. Feginn vildi ég að ekki hefði þurft að endurflytja hana, að þau vandamál, sem hún fjallar um, hefðu verið leyst á viðunandi hátt eða a.m.k. að æskileg lausn væri í sjónmáli. En því er ekki að heilsa. Ég gæti rakið nýlegt einstakt dæmi um þennan óleysta vanda sem bitnar á svo mörgum, þessum einstaklingum mikilla örðugleika þó fyrst og síðast.

Við umræðu málsins fyrir tveimur árum rakti hv. 2. landsk. þm. Jóhanna Sigurðardóttir í glöggu máli erfiðleikasögu annars einstaklings sem enn hefur heldur ekki tekist að leysa. Það er vissulega dapurlegt þegar svo brýnu máli er vísað frá hér á þingi með þeim hætti er ég rakti hér í grg., tilvísun á lausn sem þegar í þeim umræðum reyndist engin. Vísað var þá til Kópavogshælis, þeirrar ofsetnu stofnunar, svo fjarstætt sem það var og er enn í dag, þegar jafnvel í reglugerð nýlega settri um hælið er greint frá að nauðsyn sé á því að útskrifa þaðan tugi einstaklinga svo starfsemi þar megi færast í sem æskilegast horf fyrir þá sem þar yrðu þá vistaðir til langdvalar. Frá því ráði var því blessunarlega þegar horfið við afgreiðslu málsins enda gervilausn ein, óraunhæf í alla staði. Þá var vísað á Vífilsstaði og hélt ég máske að þar væri möguleiki en svo mun alls ekki verða enda allt þar fullsetið og máske rúmlega það.

Málið er því í sjálfheldu og það hrópar á okkur um úrlausn eins og tillaga okkar gerir ráð fyrir. Það er vissulega erfiðara þegar verið er að skera niður framlög til þessa málaflokks í heild meðan framlög eru aðeins helmingur þess eða tæplega það sem lög kveða á um. Það er einmitt lýsandi um þetta að meiri hluti nefndar, sem lagði til frávísun á málinu, vísaði beint á þann Framkvæmdasjóð fatlaðra sem nú er svo hart leikinn af þeirri ríkisstj., sem hann styður, að hann er gersamlega ófær um að gegna skyldum sínum þótt aðeins sé vikið að framhaldsframkvæmdum sem mest knýja á.

Hvort tveggja, úrlausn sem viðunandi væri eða fullnægjandi fjármagn, er víðs fjarri og gerir þennan tillöguflutning nauðsynlegan á nýjan leik. Gagnvart þessum illa settu einstaklingum, gagnvart aðstandendum þeirra, gagnvart því starfsfólki sem aðstöðu og möguleika skortir til nægrar aðhlynningar, gagnvart öllu þessu fólki og fyrir það verður Alþingi að reka af sér slyðruorðið og bæta hér úr sem allra fyrst öllum til góðs og þjóðfélagi okkar til verðugs vegsauka. Þetta er í huga okkar flutningsmanna eitt brýnasta velferðarmálið sem við eigum og verðum að leysa.

Ég vil aðeins geta þess svo að lokum, herra forseti, að til allshn. Alþingis barst á sínum tíma umsögn um þessa þáltill. frá þeim samtökum sem gerst þekkja hér til, landssamtökunum Þroskahjálp, þar sem þau mæla eindregið með samþykkt þessarar till., gera í raun og veru einnig tillögu um það hvernig að skuli staðið. Þau hafa nú m.a. það mikinn áhuga á þessu máli - það knýr svo mjög á þá aðila sem þarna eru í forsvari - að ég veit að stjórn þessara landssamtaka hefur farið fram á það við Ríkisútvarpið - sjónvarp að taka þetta mál sérstaklega fyrir, kryfja það til mergjar til að vekja á því athygli ef vera mætti að augu manna hér á þingi og úti í samfélaginu gætu frekar opnast fyrir því hve hrikalegur vandi hér er á ferð. Um er að ræða fáa einstaklinga sem búa við mikla örðugleika, einstaklinga sem í dag eiga hvergi heima í kerfinu, hrekjast sumir milli stofnana, eru sums staðar vistaðir við alls ófullnægjandi aðstæður og fá í engu þá umönnun og þá aðhlynningu sem þeir þyrftu að fá og eru í meiri þörf fyrir en flestir aðrir einstaklingar í þessu þjóðfélagi.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja það til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til síðari umræðu og hv. félmn.