03.12.1985
Sameinað þing: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

92. mál, vistunarvandi öryrkja

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Út af ummælum hv. síðasta ræðumanns skal það tekið fram að því miður hefur það oft verið venja að haldnir hafi verið fundir í Alþingi og fáir verið mættir. Það hefur meira að segja verið nær föst venja fyrr á árum þegar fór að nálgast jólahátíð og annríki var mikið og mikið af málum fyrir á dagskrá að haldnir voru fundir kannske kvöld eftir kvöld til að taka þáltill. til umræðu og voru þá naumast aðrir viðstaddir en þeir sem mæltu fyrir þeim.

Við erum á framfaravegi nú í þessu efni. Allt er ekki enn orðið fullkomið en það er ekki ætlunin að fylgja hinum gamla sið. Það verður ekki gert án þess að sérstakar nauðir reki til að halda slíka kvöldfundi. En það er ekki goðgá að ætlast til þess að þm. séu mættir á þeim tíma sem nú er. Ef þm. þóknast hins vegar ekki að vera mættir höfum við ekki ráð til að færa þá hingað. Það er heldur ekki sanngjarnt að þeir, sem sýna takmarkaðan áhuga á þingmálum, geti með fjarveru sinni komið í veg fyrir að þeir vinni sem eru til staðar.

Umr. (atkvgr.) frestað.