03.12.1985
Sameinað þing: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

90. mál, langtímaáætlun um jarðgangagerð

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er gallinn við þessa fámennisfundi hér síðdegis að oft fara merk mál í gegn án þess að aðrir veiti þeim athygli eða gefi gaum en sá sem fyrir málinu mælir. Hv. 2. þm. Reykn. kom í ræðustól og sagði að hér væri sennilega um eina frumlegustu till. að ræða sem komið hefði fram á þessu þingi. Ekki vil ég nú nota þau orð um þetta mál. Ég vil hins vegar segja að þetta er ein af athyglisverðari tillögum sem komið hafa fram hér á þingi.

Nú háttar misjafnlega til hér á landi og það er ekki nema sums staðar sem þessi gerð af samgöngumannvirkjum á við. Það er hins vegar ekki atriði sem skiptir meginmáli. Það er alveg ljóst að tækni við gerð jarðganga hefur fleygt fram og fleygir mjög ört fram. Og það er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast með og tileinka okkur þá tækni sem hagkvæmust er og hentugust hverju sinni við framkvæmdir sem þessar vegna þess að áður en langt um líður hlýtur þessi kostur að koma mjög til álita á ýmsum stöðum hér á landi.

Vegna skylduverka á vegum Norðurlandaráðs var ég fyrir skömmu á ferð í Álasundi í Noregi. Þar er eyjabyggð við fjörð og háttar svo til að annað samgöngumannvirki þeirra, þ.e. flugvöllur, er á eyju skammt frá meginbæjarbyggðinni. Þarna eru reknar a.m.k. fjórar eða fimm ferjur til að halda uppi samgöngum við tvær eða sennilega fleiri eyjar byggðar þarna í grenndinni. Þeir heimamenn í Álasundi sýna nú gestum sínum áætlun sem þeir eru að hrinda í framkvæmd um gerð tvennra jarðganga sem eru samtals 8,5 km að lengd. Þetta er dýrt verk. Ég má ekki nákvæmlega með það fara hversu mikið það kostar í íslenskum krónum, en hitt skiptir meginmáli, að þeir fullyrða að þessi framkvæmd borgi sig á 15-16 árum. Rekstri ferjanna verður hætt, tekinn verður vegatollur í göngunum og miðað við svartsýnustu áætlanir þá borgar þetta sig á 15-16 árum. Þetta verður fjármagnað með innlendum lánum í Noregi. Norðmenn eru það auðug þjóð, m.a. vegna sinna olíulinda, að þeir geta þetta og auðvitað er þetta mjög hagkvæm framkvæmd. Nú er mér alveg ljóst að berggerð og berggrunnur er með allt öðrum hætti í Noregi en hér og framkvæmdin sennilega að því leytinu auðveldari. En engu að síður er þetta athyglisverð framkvæmd og ég er þeirrar skoðunar að sú till. sem hér er á borðum og til umræðu nú eigi fullan rétt á sér.

Það er aðeins eitt atriði sem ég tel kannske að orki tvímælis. Andinn í tillögunni er sá að gera margvíslegar hagkvæmnisathuganir sem er sjálfsagt og eðlilegt. Hins vegar er því slegið föstu hvar skuli byrja framkvæmdir. Ég er ekki viss um að það sé rétt. Ég held að þar eigi líka hagkvæmnisjónarmiðið að koma við sögu. Það má vel vera og eru sjálfsagt allar líkur á því að hagkvæmast sé að hefja þessar framkvæmdir þar sem flm. leggja til, þ.e. í Ólafsfjarðarmúla. Það má vel vera. Raunar kom nú hv. 1. flm. aðeins inn á það í ræðu sinni. Mér finnst hins vegar svolítið ankannalegt með tilliti til þess að þetta er till. um að kanna hagkvæmni og meta, að þá sé því slegið föstu að byrjað skuli á ákveðnum stað. Ég held að segja megi að það orki tvímælis. En þetta er mál sem er allra góðra gjalda vert og ég lýsi stuðningi við það.