03.12.1985
Sameinað þing: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

90. mál, langtímaáætlun um jarðgangagerð

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það var í tilefni af orðum hv. 2. þm. Reykn. sem ég kvaddi mér hljóðs en sá hv. stjórnarsinni er nú genginn úr salnum. (Gripið fram í: stjórnarandstaðan er einráð.) Já, stjórnarandstaðan er einráð og ætti að fjalla um þetta mál og samþykkja bara í hvelli. Æskilegast væri að gera það án nokkurra vífilengja að koma þessari góðu tillögu til beinnar samþykktar.

Hv. þm. nefndi það að tillagan væri frumleg, ekki síst á þeim tímum sem nú væru, þegar niðurskurðarhnífnum væri beitt í sambandi við allar helstu framkvæmdir. Það er nú svo að fyrir nokkrum dögum var umræða um brbl. ríkisstj. um hækkun þungaskatts og hækkun bensíns í hv. Ed. og þá hélt hæstv. fjmrh. því fram að það væri nú af og frá að um neinn niðurskurð væri að ræða á þeim vettvangi heldur væri þar um aukið fjármagn og sérstaklega auknar framkvæmdir að ræða, svo að ekki fellur þetta nú allt heim og saman hjá þeim ráðherrum og stuðningsmönnum ríkisstj.

Staðreyndin er vitaskuld sú, og það er rétt með farið hjá hv. 2. þm. Reykn., að niðurskurður hefur átt sér stað jafnt í vegamálum sem á öðrum vettvangi. Fyrst átti sér stað stórkostlegur niðurskurður við samþykkt vegáætlunar í vor. Og sú vegáætlun sem samþykkt var í vor er svo enn skorin niður við ákvörðun um breytingu á tekjustofnum til vegagerðar sem einmitt var verið að ræða í sambandi við breytingu á þungaskatti og bensíngjaldi en ekki á hinn veginn. En tillagan er nú ekki talin svo mjög frumleg jafnvel hjá ráðherrum í hæstv. ríkisstj. Við vorum á ferðalagi, þm. Vesturl., um kjördæmið og þar var vitaskuld við hverja sveitarstjórn uppi umræða um vegalagningu. Hæstv. félmrh. benti okkur á, og þá um leið sveitarstjórnarmönnum á utanverðu Snæfellsnesi, að nú þegar væri farið að líta á það sem góðan kost í sambandi við uppbyggingu vega á Snæfellsnesi að gera göng í gegnum Snæfellsnesfjallgarð og taldi jafnvel að það mundi verða ódýrari og æskilegri leið en þær leiðir sem við höfum verið að fjalla um, þ.e. að fara yfir fjallgarðinn jafnvel á tveimur stöðum. Um hefur verið rætt að þar yrði farin ný leið, ekki haldið áfram þeim gömlu leiðum sem farnar hafa verið heldur verði endurbyggð þar ný leið. Í ríkisstj. er því sjálfsagt litið á þessa tillögu sem sjálfsagða og eðlilega svo ég vænti þess að hún fái stuðning hjá félmrh. jafnt og hjá samgrh.

Ég lýsi stuðningi mínum við þessa tillögu og vil benda flm. á að það eru ekki aðeins Vestfirðir og Austfirðir og Mið-Norðurland sem eru vettvangur fyrir jarðgangagerð. Það er einnig Vesturland eins og ég hef nefnt hér. Þar eru uppi rökstuddar tillögur um að það séu mjög hagstæðar leiðir til þess að fara um.

Umr. (atkvgr.) frestað.