22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

39. mál, kynþáttaaðskilnaðarstefna í Suður Afríku

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Íslenska ríkisstjórnin hefur á alþjóðavettvangi mjög eindregið mótmælt og unnið gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnu Suður-Afríkustjórnar. Ég vil þar sérstaklega nefna aðild að sameiginlegum aðgerðum Norðurlanda sem þegar á árinu 1978 komu sér saman um áætlun til þess að þrýsta á stjórnvöld Suður-Afríku að hverfa frá misrétti kynþátta í landi sínu. Þessi áætlun var á nýafstöðnum fundi utanríkisráðherra Norðurlanda í Ósló hert og útvíkkuð. Hef ég látið dreifa henni til þm. og vísast til þess texta varðandi efnisatriði, en þau miða að því að draga úr efnahagslegum og öðrum samskiptum við Suður-Afríku.

Undanfari þessarar áætlunar voru umræður á fundi utanríkisráðherra í vor er leið og sömuleiðis í sumar í Helsinki í tengslum við tíu ára afmæli Helsinki-samþykktarinnar og í fyrra var sérstakur fundur utanríkisráðherra Norðurlanda ásamt og með utanríkisráðherrum landamæraríkja Suður-Afríku. Allir þessir fundir voru haldnir í þeim tilgangi að vinna bug á þessari kynþáttaaðskilnaðarstefnu Suður-Afríkustjórnar og þeim afleiðingum sem hún hefur haft í för með sér.

Jafnframt hafa Norðurlöndin um árabil beitt áhrifum sínum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og víðar til þess að hvetja sem flest lönd til svipaðra aðgerða gegn Suður-Afríkustjórn, ekki síst þau ríki sem veruleg viðskipti eiga við Suður-Afríku.

Á 39. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í fyrra var samþykkt fyrir frumkvæði Norðurlanda í samvinnu við nokkur Afríkuríki ályktun um samræmdar alþjóðlegar aðgerðir til afnáms kynþáttamisréttis. Ályktunartillaga þessa efnis verður væntanlega flutt af hálfu Norðurlanda og annarra ríkja einnig á yfirstandandi þingi sameinuðu þjóðanna.

Þá hefur Ísland og önnur Norðurlönd staðið að flutningi eða stutt margar aðrar tillögur um einstaka þætti Suður-Afríkumálsins, en ekki verið hlynnt kröfum um beitingu vopnavalds. Í þeim tilvikum hefur Ísland greitt atkvæði á móti ályktunartillögunni. M.a. hafa Norðurlöndin hvatt eindregið til þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna taki ákvörðun skv. VII. kafla stofnskrár samtakanna um aðgerðir sem bindandi séu fyrir öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að framkvæma, en samkomulag um slíkar aðgerðir hefur ekki náðst í ráðinu að slepptu banni því við vopnasölum sem það samþykkti árið 1977. Þó ber að vona að ráðinu takist að gera í næstu framtíð frekari ráðstafanir af þessu tagi. Aðeins slíkt skuldbindandi bann getur haft afgerandi og skjótvirk áhrif á stjórnvöld í Suður-Afríku.

Viðskiptabann fárra og smárra þjóða hefur lítið gildi þar sem viðskiptin færast einfaldlega annað og séu umtalsverðir hagsmunir í húfi bitnar slíkt viðskiptabann fárra þjóða aðeins á þeim en ekki Suður-Afríku. Þrátt fyrir þessa staðreynd hafa norrænu ríkin nú ákveðið að auka og efla þær ráðstafanir sem þær gripu til á árinu 1978 og hvetja um leið aðrar þjóðir til að gera svipaðar ráðstafanir í þeirri von að nægjanlega margar og öflugar viðskiptaþjóðir fari að dæmi Norðurlanda og skapi þannig þann aukna alþjóðlega þrýsting á stjórnvöld í Suður-Afríku sem leiði til þess að hið hróplega misrétti kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar verði upprætt með friðsamlegum hætti.

Viðskipti Íslands við Suður-Afríku eru afar lítil. Innflutningur okkar frá Suður-Afríku nam í fyrra og nemur á þessu ári 1/1000 úr prósenti af heildarinnflutningi og útflutningurinn 1/5000 úr prósenti af heildarútflutningi. Verðmæti innflutnings s.l. árs var 27,8 millj. kr. og 23,7 millj. kr. fyrstu átta mánuði yfirstandandi árs. Útflutningur var í fyrra 4,2 millj. kr. og nú 5,2 millj. kr. til ágústloka. Meginhluti þessa innflutnings eru ávextir, en út hafa verið fluttar iðnaðarvörur. Þessar tölur tala sínu máli um að það er ekki á valdi okkar Íslendinga einna að beita Suður-Afríkustjórn viðskiptaþvingunum og raunar munu samanlagðar tölur Norðurlandanna einnig léttvægar þótt viðskipti annarra Norðurlanda séu töluverð eða hafi verið.

Við skulum vera raunsæir, en hins vegar ekki láta okkar hlut eftir liggja heldur erum við nú sem áður reiðubúnir til að taka þátt í sameiginlegum aðgerðum og hvetjum til þeirra. E.t.v. skiptir mestu máli að við látum óhikað rödd okkar heyrast og ég vil því ljúka svari mínu með því að lesa upp það sem ég sagði um mál þetta á yfirstandandi allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir tæpum mánuði, hinn 24. september:

„Eitt vandamálanna í brennidepli nú er hin illræmda kynþáttaaðskilnaðarstefna Suður-Afríku, apartheid, sem rekin er af mikilli hörku af þarlendum stjórnvöldum. Stefna ríkisstjórnar minnar og annarra Norðurlanda til þessa máls er vel kunn þingheimi. Allt frá árinu 1978 hafa þessi lönd staðið að sameiginlegum aðgerðum gegn hinni ómannúðlegu, grimmu og úreltu apartheid-stefnu. Önnur ríki hafa einnig gripið til svipaðra aðgerða sem auka munu þann þrýsting er við vonum að muni fyrr eða síðar leiða til þess að ríkisstjórn Suður-Afríku hverfi frá þessari illræmdu stefnu sinni. Er við beinum athygli okkar og aðgerðum gegn stjórnvöldum Suður-Afríku skulum við samt ekki missa sjónar af því mikla óréttlæti sem enn viðgengst í mörgum öðrum ríkjum heims. Við verðum að vinna að úrbótum hvarvetna þar sem óréttlæti er enn við lýði og mannréttindi fótum troðin.

Ég vil hér með lýsa yfir eindregnum stuðningi ríkisstjórnar minnar og íslensku þjóðarinnar við látlausa viðleitni Sameinuðu þjóðanna til að efla og treysta mannréttindi hvarvetna í heiminum. Mannréttindi, lýðræði og frelsi eru samofin forsenda þess að takast megi að koma á varanlegum heimsfriði.“