03.12.1985
Efri deild: 22. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

127. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara mörgum orðum um málið sem beint er á dagskrá, þ.e. skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Það er

margrætt mál og raunar ekki neitt stórmál. Þetta er ekki mikil upphæð í öllum þeim talnalestri sem við heyrum hér og lesum svo að ég ætla ekki að eyða tíma í það frekar. En út af fyrir sig er ánægjulegt að upp skuli koma almennar umræður um tekjuskatta annars vegar og neysluskatta hins vegar og full ástæða til að ræða þau mál miðað við þær aðstæður sem við búum við í þessu þjóðfélagi.

Ég hef ekki farið dult með það, hvorki hér úr þessum ræðustól né annars staðar, að ég hef talið mjög brýna nauðsyn bera til þess að stórlækka neysluskatta. Um það held ég að ég hafi skrifað í ein sjö ár og bent á að aldrei mundi verða hægt að ráða við verðbólguna öðruvísi en að ríkið kæmi til móts við þegnana einmitt með því að lækka vöruverð eða lækka álögur á brýnustu lífsnauðsynjar til þess að fólk gæti lifað við lægri laun en ella og þyrfti ekki að knýja fram meiri launahækkanir til þess að hafa beinlínis til hnífs og skeiðar. Ég er sannfærðari um þessa stefnu nú en nokkru sinni fyrr. Það er búið að sýna sig að engin ríkisstj. hefur getað ráðið við verðbólguna með því að síauka álögur á brýnustu neysluvörur hvers einasta heimilis og hvers einasta manns, álögur sem venjulega leggjast þyngst kannske á fjölmennustu fjölskyldurnar, barnmörgu fjölskyldurnar, því að þar eru einfaldlega munnarnir fleiri. Þetta er lagt sem sagt á allra brýnustu lífsnauðsynjar og jafnvel var hugmyndin að leggja neysluskatta á brauðið sjálft svo að eitt dæmi sé nefnt. Það kom auðvitað ekki til greina í mínum huga að þetta gæti gengið upp.

Ef sú leið hefði verið farin af fyrri ríkisstjórnum og þessari að í kjölfar t.d. gengisbreytinga hefðu verið lækkaðar álögur á brýnustu lífsnauðsynjar held ég að tekist hefði að ráða við verðbólguna, að vísu með breytingum í peningamálum, sem ég hef líka margrætt og hv. þdm. þekkja mínar skoðanir á því. Það er sem sagt ekki hægt að hafa frjálsa vexti og loka peninga inni, það dæmi gengur alls ekki upp, getur ekki gert það. Það er bara ósköp einföld staðreynd sem hvert mannsbarn ætti að skilja, enda er íslenska krónan þegar orðin brotin í mél. Þeir peningar sem okkur er sagt að séu innlendir eru allir meira og minna erlent fé, t.d. öll afurðalán sjávarútvegsins. En út í þá sálma ætla ég ekki að fara.

En ef við berum saman annars vegar tekjuskatt og hins vegar neysluskattana, sem áformað var að leggja á í fjárlagafrv. þegar það var fram lagt, er auðvitað tvennt sem styður það að fresta núna fremur að lækka tekjuskattinn en að lækka hann og leggja mjög miklar byrðar á fólkið með hækkuðu vöruverði.

Í fyrsta lagi, og það er mikilvægast, hefur því miður í þessu þjóðfélagi verið að þróast meira misrétti en áður hefur þekkst í áratugi. Það hefur verið að þróast á undangengnum mörgum árum og er ekki sök þessarar ríkisstj. heldur fyrrv. ríkisstjórna. Það hefur verið búin til fátækt á Íslandi í mesta góðæri sögunnar. Þetta vita allir menn. Sem betur fer er fátæka fólkið kannske ekki mjög margt. Ég veit ekki hvaða hundraðshluta maður ætti að nefna. Kannske er það fimmti hver maður, fimmta hver fjölskylda, sem varla hefur fyrir allra brýnustu lífsnauðsynjum. Þetta var varla þekkt fyrir t.d. 1-2 áratugum.

Svo eru aðrir auðvitað sem hafa stórhagnast á verðbólgunni og því sukki sem þróaðist þegar menn voru að telja sér trú um að allt léki í lyndi og væri í lagi og hægt var að dylja það að íslenskt peningakerfi var hrunið með því að taka þessi gífurlegu erlendu lán. Þetta var dulið árum saman. Ég og fleiri bentu á hvernig komið væri. Það hlustaði enginn maður á það. Á meðan var hægt bara endalaust að taka erlend lán og framfleyta fólkinu með þeim hætti.

Þetta er auðvitað frumástæða þess að skárra er að hætta við að lækka tekjuskattana en að leggja á mikla neysluskatta. Og í viðbót auðvitað það að fátækasta fólkið, þetta sem ég er að tala um, greiðir einfaldlega enga tekjuskatta. Það hefði engra hagsmuna að gæta í því að tekjuskattar væru lækkaðir. (Gripið fram í.) Sjálfsagt ekki þeir ríkustu heldur. Ég geri ráð fyrir að þetta sé alveg rétt athugasemd hjá hv. þm., sumir hverjir a.m.k. En fyrir utan þetta, sem ætti að vera öllum ljóst, á auðvitað fremur að lækka neysluskatta en hækka þá ef við ætlum að reyna að koma til móts við þá sem erfiðasta aðstöðu hafa í þjóðfélaginu.

Svo er hin hliðin á málinu: að tekjuskattslækkun getur auðvitað gert það að verkum að meiri hluti í launþegasamtökum sætti sig við minni kauphækkanir eða kannske engar kauphækkanir. Ég segi meiri hluti vegna þess að það er auðvitað ívilnun fyrir þá sem hafa miðlungstekjur og liðlega það að fá lækkaða tekjuskatta þó það sé ekki fyrir hina lægst launuðu. Að því leyti til mundi lækkun tekjuskatts hjálpa til við að stöðva verðbólgu. Kauphækkanir yrðu eitthvað minni en ella, en þær yrðu vafalaust líka minni hjá þeim sem einskis njóta í því að tekjuskattar væru lækkaðir, þ.e. tekjulægsta fólkinu.

Lækkun neysluskatta verkar líka á þennan veg, að fólk getur sætt sig við minni kauphækkanir en ella, einfaldlega vegna þess að vöruverð verður þá lægra en með þessum háu sköttum, og hún verkar þess vegna á þann veg að draga úr verðbólguþróun alveg á sama hátt og lækkun tekjuskattanna. Þar fyrir utan verkar hún beint á verðlagið. Og hvað heitir þetta á íslensku? Það heitir verðbólga, þ.e. vöruverðið í þjóðfélaginu bólgnar upp. En með því að lækka neysluskatta verkar það auðvitað á tvo vegu: Annars vegar geta menn sætt sig við lægri laun alveg eins og ef tekjuskattarnir eru lækkaðir; hins vegar verkar það beinlínis beint á verðbólguna, vöruverð hækkar minna en ella væri eða lækkar á ýmsum vörutegundum.

Þess vegna er í mínum huga ekkert álitamál að miðað við þær aðstæður sem við höfum búið við á undanförnum árum áttum við auðvitað að lækka neysluskatta frekar en hækka þá og við urðum þá að búa við það að hafa þessa tekjuskatta að vísu allháa. Ég býst við að okkur svimi flest þegar við fáum okkar seðla yfir það sem við eigum að greiða í opinber gjöld. En á meðan verið er að rétta úr þessu, ástandi þar sem fólk hefur varla til hnífs og skeiðar, sem betur fer ekki stór hluti þjóðarinnar en allnokkur og allt of stór, verðum við fremur að sætta okkur við að greiða tekjuskattana - á meðan við finnum ekki einhverjar aðrar leiðir.

Það er mikið talað um virðisaukaskattinn. Vel má vera að hann verði til bóta. Ég hef ekki haft fyrir því neina sérstaka sannfæringu og hefði t.d. ekki með glöðu geði breytt yfir í virðisaukaskatt ef hann hefði átt að vera jafn á allar vörutegundir og það héldu menn raunar, meira að segja fram eftir vetri í fyrra, að svo væri alls staðar. En það er nú ekki. T.d. í Svíþjóð og í Efnahagsbandalagslöndum sumum er skatturinn mishár og jafnvel enginn t.d. á brýnustu matvörum. Það er sem sagt hægt að hafa virðisaukaskattinn með þeim hætti, og auðvitað verður unnið áfram að þeirri könnun því að söluskatturinn er meingallaður. Þegar búið er að hækka hann úr 2%, sem hann upphaflega var, upp í 25% verður auðvitað mikið undanskot. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því. Freistingin er allt of stór til þess að menn reyni ekki að skjóta þar einhverju undan.

En erindi mitt hingað var að segja að ég tel mjög heppilegt og hraustlega gert af hæstv. fjmrh. að gefa yfirlýsingu um að ekki verði lagðir á neysluskattar, að vöruverð verði ekki hækkað fyrir tilstuðlan ríkisvaldsins, og með það í höndum á að setjast niður til þess að reyna að ná heilbrigðum samningum. Þó það kosti frestun á tekjuskattslækkun furðar mig á því að menn skuli ekki frekar vilja fara þessa leið og þakka ráðherranum fyrir þá stefnubreytingu sem þarna hefur verið mörkuð, enda áttu neysluskattarnir að vera miklu, miklu hærri heldur en nam fyrirhugaðri lækkun tekjuskattsins í krónutölu.