04.12.1985
Neðri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

158. mál, viðskiptabankar

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka. 1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„2. málsgr. 9. gr. laganna hljóði svo:

Viðskiptaráðherra skipar fimm menn í bankaráð ríkisviðskiptabanka til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Ráðherra skipar formann og varaformann bankaráðs úr hópi aðalmanna til fjögurra ára.

2. gr. Á eftir 9. grein komi ný grein er hljóði svo: Ráðherra er ekki heimilt að skipa alþingismenn í bankaráð ríkisviðskiptabankanna.

3. gr. Ákvæði til bráðabirgða II hljóði svo:

Við gildistöku laga þessara skal viðskrh. skipa fimm menn í bankaráð hvers ríkisviðskiptabanka og jafnmarga til vara. Frá sama tíma fellur niður umboð þeirra er þá sitja í bankaráði ríkisviðskiptabanka.“

Efnisleg aðalatriði þessa máls eru tvö. Í fyrsta lagi er lagt til að viðskrh. skipi bankaráð ríkisviðskiptabankanna og í öðru lagi að alþm. verði óheimil seta í bankaráðum. Þetta mál hefur áður verið til umræðu, þetta var til umræðu hér í júní s.l., ef ég man rétt, þegar lög um viðskiptabanka voru fyrir þinginu. Þá var auk þess flutt tillaga um að ríkisbankarnir yrðu innan tiltekins tíma seldir almenningshlutafélögum. Till., eins og hún þá hljóðaði, gerði ráð fyrir að þessi aðferð, sem hér er lögð til, þ.e. að viðskrh. skipaði bankaráðið, gilti þangað til ríkisbankarnir væru komnir í hendur almenningshlutafélaga.

Ef við athugum aðeins ýmsar efnislegar forsendur þessa máls þá er það mjög undarleg niðurstaða, svo ekki sé meira sagt, að valdahlutföll sem fást í alþingiskosningum og þau hlutföll sem fást við skipan þingsins í alþingiskosningum séu síðan látin á ýmsan hátt teygja sig inn í alls kyns stofnanir á vegum framkvæmdavaldsins. Þá á ég ekki eingöngu við bankaráð. Við þekkjum mörg fleiri dæmi. Við þekkjum sementsverksmiðju, við þekkjum fleiri og fleiri slík dæmi. Á Alþingi er alltaf öðru hverju verið að kjósa í stjórnir ýmissa slíkra fyrirtækja.

Það er vandséð hvers vegna stjórnir og ráð slíkra stofnana eigi að vera skipuð í einhverju hlutfalli við það hvernig fólk í landinu kýs að velja alþm. inn á löggjafarsamkunduna. Hugsum okkur flokk sem bíður afhroð í kosningum. Hann getur ekki tekið þátt í ríkisstjórn, en síðan er hann ekki fyrr sestur inn á Alþingi en hann er farinn að kjósa sína fulltrúa í stjórnir og ráð sem þó eru samkvæmt lögum á ábyrgð ráðherra og ríkisstjórnar, ríkisstjórnar sem hans flokkur á enga aðild að.

Ef betur er að gáð er þetta spurning um aðskilnað þessara valdþátta, aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds í þessu tilfelli. Síðan er annað mál og það er það að til viðbótar þessu samkrulli skuli alþm. síðan vera kosnir til setu í þessum stjórnum hvort sem það eru bankaráð eða sementsverksmiðjur. Þar kemur þá til álita sú skoðun að alþm. eigi að forðast eins og þeir frekast geta að koma sér í þá aðstöðu þar sem hagsmunir þeirra og kjósenda þeirra kunni hugsanlega að rekast á.

Þetta er mál sem ég þarf raunar ekki að hafa langa ræðu um, aðskilnaður valdþáttanna og þær stjórnarskrárlegu spurningar sem vakna þegar menn velta fyrir sér þessum hætti við kosningar í stjórnir og ráð. Síðan geta menn velt fyrir sér annarri spurningu: Hvers vegna þarf að tryggja einhver sérstök flokkspólitísk sjónarmið eða flokkspólitíska hagsmuni í stjórnum eða ráðum sem þessum? Það er t.d. vandséð hvaða leiðsögn þingflokkur Alþb. getur sérstaklega veitt sementsverksmiðjunni sem hver og einn gæti ekki gert. Ég sé hvorki að það séu hagsmunir né einhver sérstök sérfræðikunnátta eða sérstök þekking á rekstri sementsverksmiðju í einhverjum tilteknum þingflokkum sem þannig þurfi að skila sérstaklega inn í stjórn þessarar verksmiðju. Þvert á móti getur þessi aðferð verið beinlínis skaðleg. Með þessari aðferð er boðið heim hættunni á pólitískum skiptareglum t.d. á fé í bönkum og hættunni á pólitískri fyrirgreiðslu og samkomulagi um slíkt í stjórnum og ráðum. Jafnvel þótt engin slík misnotkun fari fram er að mínu áliti skaðlegt að þær efasemdir séu engu að síður á ferðinni.

Mér er t.d. kunnugt um að í kanadískri stjórnsýslu eru bæði lög og reglur sem kveða svo á að þingmenn, ráðherrar og embættismenn megi aldrei koma sér í þá aðstöðu að menn þurfi að óttast það að þeir gæti einhverra sérstakra pólitískra hagsmuna eða eigin hagsmuna frekar en hagsmuna almennings. Þarna á að hafa varúðarregluna mjög í heiðri svo að aldrei geti verið hætta á að um misferli eða eitthvað slíkt geti verið að ræða. Þetta var sem sagt um spurninguna um flokkspólitísk sjónarmið inni í stjórnum og ráðum.

Síðan geta menn velt fyrir sér líka upplýsinga- og eftirlitshlutverki Alþingis, ef við tökum það sem þriðju spurninguna. Ég tel að með því að þingflokkarnir, eins og skikkurinn er, tilnefni hver um sig stjórnarmenn í þessi ráð og nefndir loki þeir um leið fyrir eðlilegt aðhald og eftirlit frá öðrum alþm. sem kynnu að vilja fara ofan í saumana á ýmsu sem þar gerist. Því valda kannske vinnureglur og gagnkvæm virðing sem samstarfsmenn bera hver fyrir öðrum. Ég tel að um leið og kominn er fulltrúi þingflokks - ég tala nú ekki um ef það er alþm. - inn í stjórn eða ráð af þessu tagi verki það hamlandi á flokkssystkini hans að ganga grimmt eftir upplýsingum eða jafnvel að fylgja eftir gagnrýni á störf þessarar sömu stjórnar. Maður getur því sagt sér að þetta geti á þennan hátt lokað fyrir upplýsingar frekar en að tryggja upplýsingaflæði sem þó að margra sögn á að vera hin sérstaka ástæða fyrir svona fyrirkomulagi.

Í fjórða lagi gerist það á þennan hátt að þegar Alþingi skipar stjórnir fyrirtækja eða banka eða hvað sem það er er Alþingi sem stofnun orðið ábyrgt fyrir rekstri þessara fyrirtækja hver sem þau eru. Alþingi á ekki að vera ábyrgt fyrir slíku. Alþingi er löggjafarstofnun en ekki rekstraraðili. Það er ríkisstjórn sem er rekstraraðili. Enda hafa menn svo sem komið auga á það og þess vegna gerist það í lagasetingu um ýmis af þessum fyrirtækjum að sagt er sem svo að stofnunin eða fyrirtækið eða bankinn eða hvað sem er heyri undir ráðherra, t.d. að bankarnir heyra undir viðskrh. en síðan kýs Alþingi stjórn. Þetta er í fullkomnu ósamræmi og þetta er fullkomlega rangt.

Þetta hefur sérstaklega verið mönnum hugleikið á undanförnum vikum þegar Hafskipsmálið hefur verið til umræðu. Raunar er það svo að við Bandalagsmenn höfum hreyft þessum hugmyndum og, eins og ég lýsti í byrjun, reyndar flutt þessar tillögur áður. En þær hafa ekki hlotið neina umræðu einu sinni, þær hafa ekki vakið áhuga neinna vegna þess að svo virðist að annaðhvort vilji menn ekki ljá þessu auga og eyra eða þeir hafi ekki komið auga á hversu rangt þetta er.

Í sambandi við Hafskipsmálið eru alþm. í þeirri stöðu að það liggur fyrir að hundruð ef ekki á annað þúsund milljóna króna úr vösum skattgreiðenda landsins munu á endanum lenda í einhverri hít, þessari Hafskipshít sem enginn raunar sér til botns í. Þetta hefur verið öllum ljóst núna í margar vikur og menn fengu tækifæri til þess strax í júní s.l. að spyrja sjálfan sig og aðra spurninga um þetta. Ýmsir halda því fram að svo hafi raunar verið í marga mánuði, að þessar upplýsingar hafi í raun og veru legið fyrir á síðasta ári. Þrátt fyrir að svo sé virðast alþm. á hverjum morgni vera manna verst upplýstir um stöðu þessa máls, þeir verða að lesa sér til í blöðum eða annars staðar vegna þess að þeir sömu menn, sem þeir kusu til að vera í þessum bankaráðum, mega ekkert segja, þeir eru undir bankaleynd.

Nú er ég ekki að hallmæla bankaleynd sem slíkri. Ég geri mér grein fyrir því að við eðlilegar viðskiptaaðstæður er eðlilegt að það sé leynd um peningamál, hvort sem það eru mál einstaklinga eða fyrirtækja, inni í bönkum alveg á sama hátt og það á að ríkja leynd um aðrar upplýsingar sem bæði einstaklinga og fyrirtæki varða. En þegar mál eru komin svona, þegar grunur leikur á um að jafnvel afbrot hafi verið framin í marga mánuði, að á bak við þetta skjól, sem Alþingi á þennan hátt veitir, sé verið að gera mjög umdeilanlega lagagerninga, eins og stofnun nýrra fyrirtækja, og þegar kannske ganga sögusagnir um að verið sé að koma eignum undan, þá er algjörlega óviðunandi að Alþingi sé aðili að málinu á þann hátt að það eru menn kosnir héðan sem eru í stjórn þessa fyrirtækis, þessa banka. Þetta hlýtur að eiga að vera á ábyrgð viðskrh.

Það hafa sumir haft á orði að viðskiptaráðherrar bæði núverandi og fyrrverandi hafi ekki sýnt mikla hörku í að ganga á eftir þessu máli. Það er kannske ekki von að svo sé. Það er alveg sama hvaða viðskrh. við tölum um, við getum velt fyrir okkur núv. viðskrh., fyrrv. viðskrh. eða viðskrh. þar áður, hann er ekki nema að hluta til ráðandi yfir þessu fyrirtæki, hann hefur ekkert yfir bankaráðinu að segja, það er ekki kosið af honum. Hann getur ekki sent það heim ef það hefur staðið sig illa. Það er kosið af allt öðrum aðila en síðan á hann að vera ábyrgur. Þetta er fullkomlega rangt. Á þennan hátt lendir Alþingi í því að bera ábyrgð á störfum embættismanna í bönkum, eins og bankastjóra, án þess þó að þeir heyri undir þingið og án þess að þm. hafi nokkurn tíma fengið upplýsingar um hvað þarna fer fram.

Varðandi bankaleynd og Hafskipsmál, þá hefur það mál fyrir löngu síðan náð því stigi að siðferðis vegna í þessu landi hefði átt að vera búið að skýra frá þessum hlutum opinberlega. Eins og ég segi, bankaleynd er eðlileg við eðlilegar viðskiptalegar aðstæður. En nú er málið orðið þannig að á meðan hér standa alþm. kannske dag eftir dag og sveitast við að kreista út örfá hundruð þúsunda, eða ég tala nú ekki um örfáar milljónir, í einhver verkefni, kannske félagsleg verkefni, þá renna út þúsund milljónir á öðrum stað og þeir vita ekki neitt um það.

Ég man eftir því að s.l. vor, um það leyti sem ég bar þessa tillögu fyrst fram, voru miklar umræður í gangi um húsnæðismál. Þá höfðu menn gjarnan stærðarviðmiðunina eitt söluskattsstig. Þá var söluskattur hækkaður um eitt stig og það fór skjálfti um allt samfélagið. Söluskattur hækkaður um eitt stig og hverju skilaði það? 250 millj. Það gæti endað með því að hérna læðist fjögur söluskattsstig út um bakdyrnar án þess að alþm. hafi nokkurn tíma fengið nokkrar upplýsingar um það. Það er óþolandi að Alþingi veiti skjól fyrir þessa starfsemi.