22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

39. mál, kynþáttaaðskilnaðarstefna í Suður Afríku

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Það er rétt ályktun hjá hv. fyrirspyrjanda að ríkisstj. hyggst fylgja fram þeirri starfsáætlun sem hefur verið samþykkt á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda.

Þegar komið er að því að koma á algeru banni ber að geta þess að sérstök lagaheimild þarf þar til að koma. Algert bann á viðskiptum getur verið tvíeggjað almennt í samskiptum þjóðanna og við höfum heyrt gagnrýni hér í þessum sölum þegar ríki hafa beitt önnur ríki slíku banni eða hótunum um slíkt bann. Hér fer það mjög eftir því að hverju er stefnt með banninu og hverju ríki hyggist koma fram með slíku banni. Við höfum heyrt talað um viðskiptabann við Nicaragua, við höfum heyrt talað um hótanir í okkar garð um viðskiptabann vegna hvalveiða, en svo virðist vera að sumu fólki finnist vænna um líf hvala en manna, og við vitum um mannréttindabrot víða um heim. Í ýmsum þessum tilvikum, og einkum þegar talað er um mannréttindabrot, kemur vissulega til greina að beita viðskiptaþvingunum, en þá skulum við taka það með í reikninginn að við þurfum að gæta þess að brjóta ekki alþjóðasamninga á viðskipta- og tollasviði sem gera ráð fyrir frjálsum viðskiptum. Og sú lagaheimild er nú í gildi að við þurfum ekki sérstök lög eða lagabreytingu til að fylgja viðskiptaþvingunum sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gerir bindandi. Það getum við gert umsvifalaust. Þess vegna er þessi ályktun Norðurlandaþjóðanna í þeim tilgangi gerð m.a. að öryggisráðið útvíkki þær samþykktir sem bindandi eru taldar af þess hálfu gagnvart þjóðum heims og snerta viðskipti við Suður-Afríku.

Aðeins að lokum, herra forseti, skal þess getið að því er samskipti á sviði íþrótta snertir að stjórnvöld hér á landi og raunar víða á Norðurlöndum hafa talið það í sjálfsvaldi íþróttahreyfingarinnar sjálfrar, með virðingu fyrir sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti frjálsra félagssamtaka, að ákveða með hvaða hætti samskiptum við Suður-Afríku eða önnur ríki, sem mannréttindabrot stunda, er háttað. Mér er kunnugt um að íþróttahreyfingin hefur ekki hug á að efla þessi samskipti og jafnvel fremur einmitt í þeim anda sneitt hjá þeim. En ég held að það sé affarasælast að láta frjáls félagssamtök um að hve miklu leyti þessi samskipti eru stunduð. Ég treysti þeim fyllilega til þess.

Þá vil ég aðeins segja það í sambandi við bann á innflutningi vara frá Suður-Afríku eða útflutningi vara til Suður-Afríku að það er auðvitað á valdi neytandans hér á Íslandi, kaupandans, að sneiða hjá kaupum á vörum frá Suður-Afríku sem og varðandi útflytjendur að neita sér um þann markað sem þar er að finna.