04.12.1985
Neðri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

158. mál, viðskiptabankar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég tek til máls vegna þess að ég er mótfallinn þessu frv. og vil láta það koma hér fram.

Þar er fyrst til að taka að hér voru raktir mannkostir núv., fyrrv. og viðskrh. þar áður í þessari umræðu. Ég treysti ágætlega hæstv. ráðherrum, hæstv. fyrrv. viðskrh. Svavari Gestssyni, hæstv. fyrrv. viðskrh. Matthíasi Á. Mathiesen og hæstv. núv. viðskrh. Matthíasi Bjarnasyni, en ég sé ekki að það bæti ástandið að fela þeim að skipa bankaráð ríkisviðskiptabankanna. Ég treysti þeim ekkert betur en Alþingi, nema síður sé, til að gæta nauðsynlegs jafnvægis í bankaráðunum og skipa þau hæfum mönnum.

Ég er ekki sérstakur talsmaður þess að alþm. sitji í bankaráðum að undanteknu því að ég tel alveg nauðsynlegt að alþm. sitji að verulegum hluta í bankaráði Seðlabankans. Seðlabankinn er pólitísk stofnun. Hann verður að vera í takt við stjórnvöld á hverjum tíma. Þá er eðlilegt að menn sem eru í nánum tengslum við stjórnarstefnu og hafa náið samband við hina pólitísku strauma í landinu hafi þar mest að segja.

Ég tel sem sagt að Seðlabankinn hafi þá sérstöðu að það sé nauðsynlegt fyrir fjármálapólitík í landinu að þar sitji menn sem hafi náið samband við hina pólitísku strauma í þjóðlífinu og að ríkisstjórn á hverjum tíma hafi þar holla stuðningsmenn til að framfylgja innan bankans þeirri stefnu sem mörkuð er í peningamálum þjóðarinnar.

Ég vil hins vegar alls ekki útiloka að við aðra viðskiptabanka geti alþm. gegnt starfi bankaráðsmanna og alls ekki fara að útiloka þm. sem slíka. Ég tek það að vísu fram að það heyrir frekar til undantekninga ef fulltrúar eða varafulltrúar Framsfl. í bankaráðum viðskiptabankanna séu alþm. Ég hef þetta ekki á blaði fyrir framan mig, en ég held að ég muni nokkuð rétt að svo er ekki. En alþm. eru auðvitað prýðilega hæfir til að gegna þessum stórfum og ekkert vanhæfari en aðrir borgarar nema síður sé.

Ég vil mótmæla ósvífnum aðdróttunum um að alþm. séu vanhæfir til setu í bankaráðum og aðdróttunum, sem finnast á þessu þskj. og heyrðust í ræðu flm., um að misferli skapist vegna þess að alþm. sitji í bankanum. Bankaráðum geta auðvitað orðið á ýmisleg mistök eins og öðrum nefndum, en ég held að það sé ekki hægt að halda því fram að þau verði til vegna þess að þar sitji alþm.

Ég vil líka taka það fram að í bankaráðum viðskiptabankanna, þó að þau séu kosin pólitískri kosningu, er það ekki svo að stjórnmálaflokkarnir séu að koma sér upp einhverjum senditíkum í bönkunum. Við erum að velja þessa menn vegna þess að við treystum þeim til að geta haft góð áhrif á stjórn bankanna og geta látið gott af sér leiða í störfum.

Ég tel einnig að heppilegt sé að hafa jafnvægi á pólitískum skoðunum endurskoðenda og það á reyndar við í ýmsum fleiri stjórnum. Þingflokkarnir eru tæki til að halda þessum pólitíska „ballans“ og passa upp á hann. Ég tel að það sé af hinu góða og verði frekar til tryggingar því að ekki verði um mistök að ræða þar sem menn hafa aðstöðu til að passa hver upp á annan.

Hér hefur verið rætt um bankaleynd. Það er vandmeðfarið mál. Auðvitað getum við verið sammála um að nokkur bankaleynd sé nauðsynleg til þess að eðlileg viðskipti geti þrifist. Hins vegar má hún ekki keyra úr hófi og má ekki fá á sig leynireglu- eða pukursblæ. Það er alveg ljóst. Þetta má ekki lokast eins og frímúrarastúka. Ég held að það sem þurfi að gera sé að styrkja bankaeftirlitið, taka það úr Seðlabankanum og gera það að sjálfstæðri, öflugri stofnun sem hefði vald til að grípa inn í, mannafla til þess að fylgjast með því sem gerist og afl til að grípa inn í þegar bankaeftirlitinu þætti vera komið í óefni.

Menn hafa í þessari umræðu verið að velta sér nokkuð upp úr þessu Hafskipsmáli hér í ræðustólnum. Það er mjög á orði manna þessa dagana og reyndar ekki að tilefnislausu. Ég ætla að leiða hest minn frá því að ræða Hafskipsmálið. Það er ekki mál Framsfl. (Gripið fram í: Er það flokksmál einhvers flokks?) Ég tók það fram að það væri ekki flokksmál Framsfl. Það kann að vera að einhver annar flokkur taki það til sín. En ég tek Hafskipsmálið ekki til mín eða Framsfl.

Af Hafskipsmálinu má hins vegar margt læra. Það eina góða við mistökin er að það er hægt að læra af þeim stundum, þ.e. ef menn hafa þroska til að læra. Það er ljóst að þar hafa orðið mistök. Menn hafa ekki gætt þess nægilega að halda í skottið á braskarafélögum. hvort sem þau heita Hafskip eða annað. Hins vegar vil ég undirstrika að ég held að ekki sé hægt að skrifa á ábyrgð núverandi bankaráðs bankans eða núverandi bankastjóra bankans, nema þá að litlum hluta, þau mistök sem hafa orðið. Þetta eru gamlar syndir sem hafa verið að safnast upp til margra ára. Það hefur eitthvað brugðist. En ég held að ekki sé hægt að kenna, nema þá að litlum hluta, því bankaráði sem búið er að sitja um skamman tíma, núverandi bankaráði, um það, hvað þá að kenna því um allt. Og alls ekki er hægt að skrifa það á reikning bankaráðsins vegna þess að þar hafi setið alþingismenn. Ég tek það reyndar fram að bankaráðsfulltrúi Framsfl. í því bankaráði er ekki alþm.

Það kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. 2. landsk. þm., að Alþfl. tilnefndi ekki alþm. í bankaráð. Ég minnist nú þess að Alþfl. hefur haft tilhlaup um slíkt. Seinast þegar kosið var í bankaráð hafði Alþfl., ef ég man rétt, verulegan áhuga á að alþm. tæki þar sæti.