04.12.1985
Neðri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

158. mál, viðskiptabankar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð sem mig langar til að leggja inn í þessa umræðu hér og nú. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, 5. þm. Reykv., flutti hér að ýmsu leyti athyglisverða ræðu. Ég verð að segja það að mér fannst nú frjálshyggja Guðrúnar Helgadóttur, sem að vísu fannst í hennar ræðu, ekki nærri eins beitt og sú frjálshyggja sem var að finna í ræðu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar og fór það að venju.

Hv. þm. spurði: Hvers vegna ríkisbanka? og velti þeirri spurningu fyrir sér. Ég vil svara henni þannig að ég tel eðlilegt að ríkið reki styrka bankastarfsemi í landinu. Það er hugsanlegt að ríkið komist af með færri banka en nú og það getur vel verið að eðlilegt sé að endurskipuleggja bankastarfsemina. En ég treysti ekki einkaframtakinu til þess að gegna því hlutverki alfarið. Einkaframtakið og samvinnumenn og alþýðusamtökin hafa þreifað sig áfram við bankastarfsemi. Ég held að við séum ekki komnir á þann stað þar sem þessum aðilum sé treystandi til að taka að sér alla bankastarfsemi í landinu. Einkaframtakið hefur nú sannað sig, sannað getu sína. Það lét ljós sitt skína á stjórnarfundum Hafskips. Þar hrakyrtu menn samvinnuhreyfinguna fyrir minna en ári síðan og er sú saga ekki öll gleymd. Ég tel heppilegt að þessir einkaframtaksmenn sem þar héldu um stjórnvölinn, héldu þó ekki um stjórnvölinn á Útvegsbanka Íslands. (Gripið fram í: Þér finnst rétt að þeir séu í ríkisstjórn?) Ég vona að þeir snúi sér ekki að bankastarfsemi þegar þeir eru hættir störfum við þetta fyrirtæki.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson talaði um að sparifé gamla fólksins hafi verið rænt á undanförnum árum og það er nokkuð til í því. Menn vitna gjarnan í það rán sem átti að hafa farið þarna fram og víst er um það að ekki var hún öll til fyrirmyndar, meðferð á sparifé gamla fólksins. En ég sá í blaði um daginn fróma spurningu um vaxtamál. Hún er frá einum af okkar ágætu starfsmönnum hér á Alþingi. Þetta er örstutt spurning og mig langar til að fá að lesa hana hér, með leyfi forseta:

„Til þess liggja auðskilin og augljós rök að lánsfé sé verðtryggt. Sá sem felur banka eða sparisjóði fé til varðveislu á að fá það aftur með skilum og sá sem fær fé að láni á sömuleiðis að skila því í fullu gildi. Þetta eitt köllum við heilbrigða viðskiptahætti. Nú eru þeim sem leggja fé í banka boðnir vextir ofan á verðtrygginguna og í sumum tilfellum nokkuð háir vextir, að ýmsum finnast. Fljótt á litið sýnast það vera góð boð til þeirra sem eiga sparifé. En það eru þó tvær hliðar á flestu. Þó sparsamir menn og hóflegir um eyðslu eigi nokkurt sparifé eru þeir neytendur jafnframt og sem neytendur tapa þeir á háum vöxtum. Vextirnir koma nefnilega fram í almennu verðlagi, þeir auka verðbólgu. Nú langar mig til að spyrja: Hvað kostar 1% í vaxtafæti venjuleg öldruð hjón mikið á einu ári? Eða m.ö.o. hversu mikið sparifé þurfa hjón að eiga til þess að vextir af því geri betur en að mæta þeirri verðhækkun sem þau verða að bera vegna almennra verðhækkana sem vextirnir valda? Ég treysti því að einhverjar þær hagfræðistofnanir sem reikna mest og best í sambandi við lífskjör, afkomu og þjóðmegun hafi á takteinum einhver svör við þessu. Það snertir okkur öll.“ Svo mörg voru þau orð, herra forseti.

Þetta finnst mér vera athyglisverð spurning og ég beini því til hv. 5. þm. Reykv. hvort hann vildi ekki velta þessu aðeins fyrir sér, og annarra hávaxtamanna, sem hér koma iðulega í ræðustól í hv. deild.

Hv. 4. landsk. þm. Guðmundur Einarsson las hér auglýsingu úr Morgunblaðinu. Mér þykja þeir í meira lagi spaugsamir, auglýsingastjórar Útvegsbankans. Ég get prýðilega tekið undir það með honum. Ég velti því aðeins fyrir mér með áhættuna. Ég held að það sé nú þrátt fyrir allt skárra til þess að vita að þarna er um ríkisbanka að ræða sem verður fyrir þessum ósköpum en ef um einkabanka hefði verið að ræða þar sem fólk, sem inn í bankann hefði lagt í góðri trú, tapaði sparifé sínu. Hins vegar þykja mér þeir í meira lagi spaugsamir að slá á þessa strengi nú um stundir. Ég er sammála hv. þm. um það.

Ég nenni nú ekki að elta ólar við útúrsnúninga úr ræðu minni sem hann flutti. Hann taldi að ég hefði sagt að enginn bæri ábyrgð í þessu máli. Það sem ég sagði var það að ég taldi ábyrgðina ekki alla núverandi bankaráðs eða núverandi bankastjóra. Þetta er löng saga sem þarna hefur gerst og það eru fleiri en þeir sem nú eru við stjórnvölinn sem bera þarna ábyrgð og fleiri en alþingismenn sem bera þarna ábyrgð. Hv. þm. taldi mig líka hafa sagt að ég hefði talið alþm. sitja í bankaráðum til að láta gott af sér leiða. Auðvitað láta þeir gott af sér leiða þar eins og aðrir bankaráðsmenn. Ég átti við að þeir fulltrúar, sem kosnir eru í bankaráðin, eigi allir að láta gott af sér leiða, og hv. þm. Guðmundur Einarsson á náttúrlega bæði að láta gott af sér leiða hér á Alþingi og annars staðar þar sem hann starfar.

Varðandi það til hvaða nefndar málinu yrði vísað var það nú með hálfum huga að hv. þm. gerði tillögu um að vísa því til fjh.- og viðskn. Það var vegna þess að ég væri þar formaður og ég væri svo óttalegur að ég settist á og svæfði þau mál sem mér ekki líkaði, eða sérstaklega þar sem ég var nú búinn að lýsa því yfir að ég væri á móti þessu máli. En ég treysti hv. þm. Guðmundi Einarssyni, sem einnig situr í þeirri nefnd, til þess að reyna að gæta jafnvægis í nefndinni þannig að formaður nefndarinnar, þ.e, ég, komist ekki upp með það að drepa þetta mál fyrir honum alveg fyrirhafnarlaust.