05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

122. mál, opinn háskóli

Flm. (Ragnar Arnalds):

Hæstv. forseti. Á þskj. 135 flyt ég till. til þál. um opinn háskóla. Í tillgr. er lagt til að Alþingi skori á ríkisstj. að undirbúa nú þegar stofnun og starfrækslu opins háskóla sem geri nemendum sínum kleift að stunda háskólanám í heimahúsum með aðstoð útvarps og sjónvarps, myndbanda og tölvutækni. Skólinn sé undir stjórn Háskóla Íslands en öllum opinn án tillits til fyrri menntunar.

Það er tilgangur þeirrar starfsemi sem hér er gerð tillaga um að þessi nýja háskóladeild veiti áhugasömu fólki fjarri menntastöðvum aukin tækifæri til æðri menntunar. Það er líka tilgangurinn að byggja upp áfangakerfi fyrir nemendur sem ekki uppfylla formleg menntunarskilyrði háskóla, þ.e. hafa ekki lokið stúdentsprófi. Það er um leið tilgangurinn að byggja upp samfellt menntakerfi til að þjálfa og endurmennta starfsfólk í atvinnulífi í nánu samstarfi við atvinnuvegina. Og loks er það hugsunin með þessari tillögu að þessi nýja háskóladeild hafi forustu hér á landi um notkun fjölmiðla í fræðsluskyni og þrói þannig kennsluaðferðir á þessu sviði með hliðsjón af íslenskum aðstæðum og fenginni reynslu hjá öðrum þjóðum.

Það er rétt að taka það skýrt fram í þessu sambandi að hér er gerð tillaga um skólastarfsemi á vegum Háskóla Íslands. Það er ekki um að ræða að sett yrði á stofn algjörlega sjálfstæð skólastofnun, heldur yrði þessi starfsemi skipulögð af stjórnendum Háskólans og færi fram í nánum tengslum við það nám sem þar er stundað. Í skólanum yrði boðið upp á ýmiss konar háskólanám, en munurinn væri sá að menn ættu að geta stundað þetta nám um allt land, heima hjá sér eða í smáhópum, með aðstoð útvarps og sjónvarps, myndbanda og tölvutækni. Þannig er nú einmitt hugsunin með þessari tillögu að æðri menntun verði gerð aðgengileg fyrir alla, óháð aldri, búsetu og fyrri menntun þeirra.

Myndbandatæknin er sérstaklega nefnd í þessu sambandi og það ekki að ástæðulausu vegna þess að upplýst hefur verið að tugir þúsunda tækja hafa verið seldir hér á landi seinustu árin og útbreiðsla þeirra sé kannske meiri hér á landi en í flestum öðrum löndum, enda mun láta nærri að tækin séu á 38% íslenskra heimila samkvæmt könnun sem gerð var í marsmánuði 1985. Það er augljóst mál að þessi mikla útbreiðsla myndbandatækni hlýtur að skapa nýja og áður óþekkta möguleika til að flytja fólki fræðsluefni og auðvelda því endurmenntun.

Í þessu sambandi er ekki síður ástæða til að minna á tölvutæknina sem líka er nú óðfluga að verða almenningseign, sérstaklega ef þeirri stefnu verður blessunarlega haldið áfram að skattleggja ekki tölvuinnkaup. Þá er von til þess að tölvulæsi, meðferð á tölvum, verði mjög útbreitt, verði almenningseign, og allt bendir til þess að þessi tæki geti orðið tiltölulega mjög ódýr að fáum árum liðnum. Tölvur má að sjálfsögðu setja í samband við símakerfi og þannig má ná sambandi við móðurtölvur, í þessu tilviki þá móðurtölvu sem stjórnaði kennslunni frá Háskóla Íslands. Þannig ætti að vera auðvelt fyrir fólk að stunda heimanám og njóta kennslu þótt langt væri milli nemenda og kennara. En vissulega skal það tekið fram að próf yrði væntanlega að þreyta í Háskólanum.

Það skal ekki dregið í efa að nokkur kostnaður fylgi því að setja starfsemi af þessu tagi á stofn og stjórna henni. Ég held hins vegar að kostnaðurinn sé hlutfallslega lítill miðað við þá möguleika sem þarna eru á ferðinni og miðað við annað nám. Við skulum gera okkur grein fyrir því að hjá nálægum þjóðum, t.d. hjá Bretum, er þessi starfsemi mjög langt á veg komin. Það er búið að gera þúsundir myndbanda - líklega tugþúsundir myndbanda - í nálægum löndum sem vafalaust væri hægt að kaupa fyrir tiltölulega lítið fé miðað við það sem kostar að framleiða þessi bönd upphaflega. Þannig má spara geysimiklar upphæðir og raunar hugsanlegt að starfsemin færi eingöngu af stað með myndböndum sem væru með íslenskum texta að sjálfsögðu.

Ég læt þess getið í grg. að háskólarektor hafi veitt mér ýmsar upplýsingar um opna háskólann í Bretlandi sem nú hefur verið starfræktur í einn og hálfan áratug með mjög góðum árangri. Ég get látið þess getið í leiðinni að augljóst er að innan Háskólans er töluvert mikill áhugi á því að koma þessari starfsemi af stað. En til þess þarf fé og til þess þarf ákvörðun Alþingis. Það er þess vegna sem sú till. er flutt að Alþingi marki stefnuna í þessum málum, taki þetta mál upp á sína arma og samþykki það og síðan sé hægt að hefja undirbúning í beinu framhaldi af því.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að halda langa ræðu um þetta mál. Það skýrir sig að öðru leyti sjálft. En ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. félmn.