05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

122. mál, opinn háskóli

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa yfir stuðningi mínum við þessa till. Hér er hreyft athyglisverðu og merku máli. Það myndi horfa til framfara í menntakerfi þjóðarinnar ef sú till., sem hér er hreyft, næði fram að ganga. Hún liggur hér fyrir í stórum dráttum. Það má velta því fyrir sér á hvaða málaþætti ætti að leggja sérstaka áherslu af þeim ýmsu atriðum sem hér er vakin athygli á.

Það er ekki vonum fyrr að þetta mál kemst á umræðustig á Alþingi. Aðrar þjóðir - og þá fyrst og fremst Bretar eins og á er bent í grg. með till. - hafa fyrir bráðum tveimur áratugum stofnað til slíkrar æðri menntunar með atbeina fjarskiptatækni, útvarps og sjónvarps, en við höfum sinnt þessu sáralítið, Íslendingar.

Það má minna á að skömmu eftir að útvarpið hóf starfsemi hér, 1930, efndi það til fræðslu, fyrst og fremst að því er tungumálanám snerti. Hins vegar höfum við verið furðu sinnulausir eftir að sjónvarpið hóf göngu sína, 1966, þó svo að ágæt málakennsla hafi farið fram innan veggja þess. En tæknin og þessi fjölmiðill, sjónvarpið, bjóða upp á miklum mun meiri möguleika en við höfum sinnt og sýnt áhuga á til þessa.

Það má velta því fyrir sér hvort hér á að vera um sérstakan háskóla að ræða, eins og till. til þál. um opinn háskóla virðist gera ráð fyrir. Ég held að best færi á því að þessi háskóli yrði sjálfstæð háskóladeild innan vébanda Háskóla Íslands og undir stjórn hans, eins og raunar er ýjað að í grg. frv.

Það er ljóst að að allmiklu leyti má kenna þannig ýmsar þær greinar sem í dag eru kenndar við Háskóla Íslands í formi fyrirlestra og verklegra æfinga. Fyrst og fremst á ég við þær greinar sem kenndar eru í formi fyrirlestra, eins og tungumál og ýmsar aðrar greinar, m.a. sagnfræði, lögfræði, viðskiptafræði og ýmsar fleiri. Unnt væri að bjóða upp á fræðslu í þeim á þá lund sem ráð er fyrir gert í þáltill.

Ég hygg að prófin yrðu eftir sem áður að fara fram á vegum Háskólans á hefðbundinn hátt. Vitanlega kallar það á frekari athugun að því er þau varðar á því hvaða fyrri menntun þeir, sem nýta sér þessa fræðslu, þyrftu að hafa. En það er atriði sem unnt er að ræða frekar í framtíðinni.

Ég hygg að gagn af slíkri fræðslu, slíkum opnum háskóla, yrði ekki síst á sviði fullorðinsfræðslu og endurmenntunar. Endurmenntun hefur aukist hér síðustu árin. Komin er á laggirnar formleg starfsemi á vegum Háskóla Íslands og Bandalags háskólamanna, Tækniskóla Íslands og fleiri aðila. Sú starfsemi er ekki nema þriggja ára gömul, en hefur þegar gefið góða raun. Hér gefst tækifæri til að efla þá starfsemi verulega, sem mikil þörf er á, frá því sem nú er.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, eins og flm. benti á, að fyrir liggur gífurlega mikið magn af erlendu fræðsluefni á háskólastigi sem unnt væri að styðjast við. Ég hygg að það sé hvorki mjög kostnaðarmikið né fyrirhafnarsamt verk að útbúa myndbönd með íslensku fræðsluefni í þeim greinum sem eru fallnar til kennslu í sjónvarpi.

Ljóst er að einhver kostnaður fylgir þessu, eins og á var bent. Hins vegar er jafnframt ljóst að geysilegur sparnaður mun verða af framkvæmd hugmyndarinnar um opinn háskóla fyrir nemendur sem geta þá stundað nám að hluta til - aldrei alveg að minni hyggju - í heimahúsum. Ég minni á í því sambandi að 30% af hverjum árgangi ljúka stúdentsprófi. Það er bylting miðað við það sem var fyrir 30 árum, svo við förum ekki lengra aftur í tímann. Við þennan stóra hóp munu bætast margir, sem notfæra munu sér fræðslu í þessari nýju háskóladeild, til viðbótar við þau 30% hvers árgangs sem ljúka stúdentsprófi. Er það vel.

Hér eru opnaðar nýjar dyr, nýjar menntabrautir, á grundvelli þessa máls.