05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

122. mál, opinn háskóli

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir eindregnum stuðningi við þessa ágætu hugmynd. Það er ekki seinna vænna að hún komi hér fram og hefði jafnvel átt að koma miklu fyrr. Ég þekki vel þessa starfsemi frá Bretlandi þar sem ég bjó um 13 ára skeið og fylgdist oft með útsendingum á fræðsluþáttum frá opna háskólanum í Bretlandi. Það sem kannske skiptir einmitt miklu máli í sambandi við kennslu og próf úr þeim háskóla er að þau próf eru fyllilega sambærileg við próf úr öðrum háskólum og í sumum tilfellum jafnvel mun betri og í meira áliti. Það skiptir auðvitað meginmáli að fólk sem þannig stundar nám verði ekki fyrir misrétti þegar það síðan kemur út á vinnumarkað eða ætlar að gegna sínum störfum.

Ég tel, eins og komið hefur fram, að þetta ætti að vera mjög ríkur þáttur í endurmenntun og í fullorðinsfræðslu t.d. og hluti af því fjarnámi sem hlýtur að verða almennara í framtíðinni. Þá á ég við fjarnám á öllum fræðslustigum, ekki endilega bara á háskólastigi, því að sjónvarpið er eins og við vitum afar kröftugur fjölmiðill.

Að lokum vil ég bara taka undir stuðning við þessa hugmynd og vona að hún fái brautargengi og verði skipulögð í samræmi við það nám sem þegar er hér fyrir.