05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Er sú afstaða, sem hæstv. utanrrh. var að lýsa hér, afstaða ríkisstj.? Ég óska eftir því að hæstv. forsrh. svari því þannig að það komi þá hreint fram hvort Framsfl. stendur að þessum viðhorfum sem hæstv. utanrrh. var að lýsa hér, viðhorfum sem eru þannig að allir jafnaðarmannaflokkarnir, bæði utan og innan Alþjóðasambands jafnaðarmanna í Evrópu, og miðflokkarnir mundu ekki styðja þau.

Sú tillaga sem hér er til umræðu er mikilvægur merkimiði á alþjóðavettvangi um hvar menn standa. Það eru fáar atkvæðagreiðslur sem fylgst er eins mikið með um víða veröld og þessi atkvæðagreiðsla um tillögu Svíþjóðar og Mexíkó um frystingu. Að Ísland skuli eitt Norðurlanda ekki styðja þessa tillögu nú er alger ómerking á þeim viðhorfum sem hæstv. forsrh. lýsti í ræðu sinni á hátíðarfundum Sameinuðu þjóðanna fyrir nokkrum vikum síðan.

Ég vil svo spyrjast fyrir um hvort hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. eru reiðubúnir til að láta fara fram atkvæðagreiðslu hér á Alþingi næstu daga þannig að þingheimur geti fengið að tjá vilja sinn í þessu máli og ákveða líkt og þingið í Danmörku og þingið í Noregi hvernig farið verði með atkvæði Íslands í þessari atkvæðagreiðslu. Þar hafa þjóðþingin mótað þessa afstöðu. Ég beini þeirri spurningu til þeirra hvort þeir séu reiðubúnir að láta Alþingi greiða um það atkvæði í næstu viku hvernig Ísland greiðir endanlega atkvæði þegar tillagan kemur til meðferðar á allsherjarþinginu.