05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í þessari umræðu. Ég vil nú byrja á því að lýsa yfir óánægju minni með það að svo stuttur fyrirvari skuli gefast þegar tilkynnt er um utandagskrárumræður með þessum hætti. Sérstaklega ef um er að ræða mál þar sem þm. vildu gjarnan taka þátt í umræðum um og þyrftu þess vegna að nesta sig örlítið betur heldur en segja einungis það sem þeim flýgur í brjóst þegar þeir standa hér í stólnum.

Það vill svo til að á undanförnum tveimur þingum hafa þingmenn Kvennalista borið fram þáltill. um frystingu kjarnorkuvopna. Sú tillaga er að meginefni til sniðin upp úr þessari tillögu sem hér er til umræðu, tillögu Mexíkó og Svíþjóðar. Þegar tilraun var gerð til þess að allir stjórnmálaflokkar og samtök á Alþingi Íslendinga gætu komið sér saman um eina stefnu, sem allir gætu samþykkt, í afvopnunarmálum, þá var tekið mið af þessari tillögu m.a. Og það er af því tilefni fyrst og fremst og af því tilefni að ég hef nú frétt í dag að Norðmenn hafi greitt atkvæði öðruvísi í þetta sinn heldur en hingað til. Og það veldur mér mikilli undrun og mér finnst það mjög leiðinlegt að við skulum standa út úr eins og sár fleinn í holdi í þessum efnum. Það hefur gjarnan verið haft að viðkvæði þegar atkvæði hafa fallið - og einmitt með þessa tillögu um frystingu kjarnorkuvopna - að við yrðum að sitja hjá til þess að fylgja hinum Norðurlöndunum. Við fylgjum ekki hinum Norðurlöndunum núna, við stöndum ein, við fylgjum einhverjum öðrum. Ég lýsi yfir óánægju minni með það að við skulum ekki hafa hugrekki til þess að fylgja fyrst og fremst vilja þessarar þjóðar og öðrum Norðurlöndum sem hafa séð sér fært að taka sjálfstæða afstöðu til þessarar tillögu.

Mér var að berast í hendur rétt í þessu texti atkvæðaskýringar Norðmanna vegna þessarar tillögu og ég var í flýti að reyna að lesa hann á ensku. Þar stendur í sambandi við eftirlit stórveldanna og þennan fund sem var haldinn í Genf að Norðmenn álitu samþykkt þessarar tillögu gefa beinan stuðning við Genfarviðræðurnar. Það er ekki lýst yfir óánægju með það, eins og hæstv. utanrrh. gaf í skyn, heldur er samþykkt tillögunnar álitin vera beinn stuðningur við Genfarviðræðurnar.

Ég skora á hæstv. utanrrh. að hlusta á vilja Alþingis í þessum efnum. Ég tek undir það að æskilegt væri ef Alþingi fengi að greiða atkvæði um þetta mál þannig að það gæti orðið stuðningur fyrir hæstv. utanrrh. til þess að skipta um skoðun. Eins og góð kona sagði mér af manni að norðan: „Ég hef vitkast. Þess vegna hef ég skipt um skoðun“, sagði hann.