05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hv. 3. landsk. þm. fann að því að það væri of stuttur fyrirvari fyrir hv. þm. fyrir umræðum utan dagskrár eins og hér fara fram. Hér er um misskilning að ræða hjá hv. þm. Það verður að hafa í huga að ákvæði 1. málsgr. 32. gr. þingskapa um umræður utan dagskrár eru beinlínis sett til að auðvelda þm. að koma vafningalaust með áhugamál sín inn á þing, hvort sem það er í formi yfirlýsingar eða fsp. til ráðherra. Það er ákvæði um það í þingsköpum að rætt skuli um þetta við forseta eigi síðar en tveim tímum áður en þingfundur hefst og það er ákvæði um að forseta beri að tilkynna um slíkar utandagskrárumræður í upphafi þingfundar. Hvort tveggja þetta var gert við þessar umræður.

Ef það á ekki að torvelda að framkvæma þingsköp í þeim anda að auðvelda þm. að koma vafningalaust með sín mál inn á þingfundi í þessu formi mega hv. þm. ekki kveinka sér undan því að taka þátt í umræðum, þó með litlum fyrirvara sé, ef þeir telja sig þurfa að taka þátt í umræðum.