05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. utanrrh. um að við eigum að hafa sjálfstæða stefnu í utanríkismálum, en hún má ekki vera svo einstrengingsleg og kröfuhörð um fullkomnun að hún geti ekki nýst til að beita þeim þrýstingi sem nauðsynlegur er á stórveldin, nauðsynlegur til að hafa áhrif á þau til þess að hreyfa sig í átt til afvopnunar. Vandamálið er ekki síst að stórveldin hefur vantað pólitískan vilja til þess að snúa sér í alvöru að afvopnun. Það gæti leitt okkur að ýmsum spurningum um hvers vegna eru svo gríðarlega miklir hagsmunir fólgnir í vígbúnaðarkapphlaupinu. Og eru stórveldin í raun eða stjórnir þeirra slíkir leiksoppar þeirra afla, sem hafa hagsmuni að því að reka þindarlaust þetta fjárfreka kapphlaup, að þau geti í raun ekki öðlast þann pólitíska vilja sem er nauðsynlegur til þess að afvopnun geti átt sér stað? Og þá er spurningin: Hvernig og hverjir eiga fyrst og fremst að reyna að þrýsta á stórveldin til að skapa þennan vilja? Er það ekki skylda og ábyrgðarhluti þess hluta heims sem ekki telst til stórveldanna þó það væri ekki nema til að bjarga lífi sínu? Og það veldur mér vonbrigðum hvernig hæstv. forsrh. svarar, því að ég var þeirrar skoðunar að hann styddi slíka tillögu um frystingu kjarnorkuvopna. Það var mín trú.