05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þá yfirlýsingu sem hann var að gefa hér. Mér er ekki kunnugt um að það hafi komið fram áður opinberlega að hann hafi sett fram þessi sjónarmið á fundi sem haldinn var í Brüssel að loknum leiðtogafundinum. Það ber vissulega að fagna því. Það var allt önnur yfirlýsing en hæstv. utanrrh. var með hér. Er rétt að Íslendingar fylgi eftir þessari yfirlýsingu forsrh. síns í Brüssel með formlegum hætti með því að greiða atkvæði með tillögu Svíþjóðar og Mexíkó. Hjáseta er eingöngu til þess að draga úr þunganum sem fólst í þessum orðum í Brüssel sem og þunganum, og segi ég það í fullri einlægni og alvöru, sem fólst í ræðu hæstv. forsrh. á þingi Sameinuðu þjóðanna. Mér er vel kunnugt um að vel var eftir þeim tekið. Þeim sem eftir þeirri ræðu tóku og þeim boðskap sem í henni fólst og þeirri stefnuafstöðu, ég get fullyrt það af nokkrum kunnugleika, mun þykja þessi hjáseta allundarleg.

Ég vil svo láta það koma hér fram að við þm. Alþb. erum reiðubúnir til þess í samvinnu við aðra þm. að flytja hér tillögu, sem verði dreift á næsta fundi þingsins, um að Alþingi lýsi því yfir að Ísland greiði atkvæði með tillögu Mexíkó og Svíþjóðar. Ég vænti þess að þegar sú tillaga kemur fram greiði hæstv. forseti sameinaðs þings fyrir því að hún verði tekin til umræðu og atkvæðagreiðslu áður en atkvæðagreiðslan fer fram endanlega á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember.