22.10.1985
Sameinað þing: 6. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

4. mál, sama gjald fyrir símaþjónustu

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um sama gjald fyrir símaþjónustu á öllu landinu. Tillögu þessa flyt ég ásamt hv. samflokksmönnum mínum, Ragnari Arnalds, Skúla Alexanderssyni, Steingrími J. Sigfússyni og Helga Seljan.

Tillaga sama efnis var flutt hér seint á síðasta þingi en ég sé ástæðu til að rifja hér upp efni hennar og fara um það nokkrum orðum. Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj.:

a. að gera áætlun um uppbyggingu símakerfisins og símaþjónustu sem geri það kleift að jafna gjaldskrá símans í áföngum með það að markmiði að landið verði allt eitt gjaldsvæði innan fimm ára,

b. að tryggja að kostnaður vegna símtala við stjórnsýslustofnanir verði hinn sami hvar sem er á landinu fyrir árslok 1987.

c. að gera ráðstafanir til að gjaldskrárbreyting skv. alið verði ekki íþyngjandi fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.

Sem kunnugt er þá er geysilegur munur á gjöldum fyrir síma annars vegar fyrir innansvæðissamtöl og hins vegar langlínusamtöl. Þetta veldur því að íbúar landsbyggðarinnar búa almennt við mun hærri símakostnað en fólk á höfuðborgarsvæðinu. Skv. mælingum Póst- og símamálastofnunarinnar á símaumferð virðist sem 75% skrefa á landsbyggðinni séu vegna langlínunotkunar en aðeins 40% á Reykjavíkursvæðinu. Miðað við meðalsamtalslengd, 3-3,5 mínútur á langlínu, lætur nærri að mati Pósts og síma að hver mínúta í langlínusamtali kosti nú tíu sinnum meira en í innanbæjarsamtali. Þessi gífurlegi munur á kostnaði er langt umfram það sem liggur að baki raunkostnaði vegna langlínukerfisins. Þessi tífaldi munur. Ef miðað væri við raunkostnað og landsbyggðinni væri ætlað að bera hann uppi, þá segja mér fróðir menn innan Póst- og símamálastofnunar að þessi munur gæti verið u.þ.b. tvöfaldur en ekki tífaldur.

Eins og menn sjá af þessu er hinn mjög svo mismunandi kostnaður við símagjöld í landinu algerlega óeðlilegur, hvort sem miðað er við þau eðlilegu rök að gjöld fyrir opinbera þjónustu af þessu tagi séu hin sömu yfir landið allt, eða kostnaðarleg rök að baki þess kerfis sem um er að ræða.

Tæknilegir möguleikar eru nú á því að allt landið geti orðið eitt gjaldsvæði innan skamms, þar sem sama gjald væri reiknað fyrir notkun, óháð vegalengdum. Þannig er unnt að jafna að fullu símakostnað meðal landsmanna óháð búsetu og aðeins spurning um pólitískan vilja og stefnumörkun hér á hv. Alþingi.

Með þessari þáltill. er gert ráð fyrir að móta slíka stefnu, sem feli það í sér að ná þessu markmiði innan fimm ára, að þá verði landið allt orðið eitt gjaldsvæði og fylgt verði áætlun um slíka uppbyggingu þannig að hún náist í áföngum.

Það er ljóst að uppbygging af þessu tagi mun kosta verulegar upphæðir. En sú uppbygging sem hér er um að ræða, að koma upp stafrænum símstöðvum, fer fram hvort sem er. Að því verki er unnið. Spurningin er aðeins um það að hagnýta hina nýju tækni og ná jafnframt fram þeim jöfnuði sem auðvelt er í krafti hennar í sambandi við mælingu.

Póstur og sími áætlaði í mars s.l. að verja þyrfti 800- 1000 millj. kr. í að byggja símakerfið upp á fullkominn hátt, til þess að mæta aukningu vegna jöfnunar á símakostnaði og að koma í veg fyrir þær hindranir sem nú eru á að ná sambandi milli landshluta af tæknilegum ástæðum. En eins og menn þekkja, ekki síst þeir sem þurfa að tala til og frá landsbyggðinni eða út fyrir sitt svæði, þá er það miklum örðugleikum bundið af tæknilegum ástæðum, einkum að kvöldlagi.

Skv. c-lið þessarar þáltill. er gert ráð fyrir því, sem eðlilegt hlýtur að teljast, að til sérstakra aðgerða sé gripið til að gjaldskrárbreyting af þessu tagi verði ekki íþyngjandi fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sem að hluta til a.m.k. njóta nú þegar undanþágu í sambandi við símgjöld, þ.e. afnotagjöldin.

Einn er sá þáttur í þessari kostnaðarjöfnun sem vikið er að í b-lið, en hann varðar sama gjald fyrir símtöl við stjórnsýslustofnanir. Það er lögð á það áhersla að slík jöfnun á kostnaði gerist fyrir árslok 1987. Það ætti að vera unnt að ná því fram miklu fyrr í rauninni. Þetta er tæknilega auðleysanlegt mál eftir að hinar stafrænu símstöðvar komast í gagnið, - það er jú fyrst hér einmitt í höfuðborginni, að ég hygg, og í Keflavík sem það gerist - að koma við þeirri mælingu sem til þarf að slík gjaldtaka, jöfn gjaldtaka fyrir símtöl við stjórnsýslustofnanir, nái fram að ganga. Auðvitað þarf það að gerast hvar sem stjórnsýslustofnunin er sett niður.

Ég var hér einmitt rétt áðan að mæla fyrir till. til þál. um nýja byggðastefnu og valddreifingu, þar sem eitt af atriðunum sem fjallað er um er að dreifa opinberum stjórnsýslustofnunum út um landið. Að sjálfsögðu þarf hið sama að gilda fyrir Reykvíkinga og aðra hér á þéttbýlissvæðum í grennd Reykjavíkur, sem þurfa að ná t.d. til Akureyrar í Byggðastofnun, - ef stjórn hennar bæri gæfu til að taka rétta ákvörðun um staðsetningu hennar á Akureyri - að þá gilti hið sama um hana eins og um símtöl við opinberar stofnanir hér í Reykjavík.

Það er líka vert að vekja athygli á því sem gerir þetta mál í senn brýnt og að mínu mati sjálfsagt. Það er það sem snýr að atvinnustarfseminni í landinu. Atvinnurekstri í landinu er nú mismunað á margvíslegan hátt. Ekki aðeins heimilin heldur einnig fyrirtækin úti á landi þurfa að bera margfaldan orku- og símkostnað og leggja í margfalt fleiri símtöl, jafnvel þó í tíma sé reiknað, við höfuðborgina en gerist um fyrirtæki hér á þessu svæði.

Og nú færist það í vöxt að menn taki tölvuþjónustu inn í sinn rekstur, noti þá möguleika sem ný tækni, upplýsingamiðlun, býður upp á, og símkerfi landsins þarf að greiða fyrir slíku. Í ljósi þess skiptir einnig afar miklu máli að það réttlætismál sem er efni þessarar tillögu nái fram að ganga.

Ég vænti þess að hv. samgrh. og húsbóndi Pósts og síma, sem var hér áðan í þingsal, ljái þessu máli lið. Ég er viss um að hann hefur á því fullan skilning og þekkir þær aðstæður sem þar er um að ræða. Ég er kannski farinn að ryðga, en ef ég man rétt heldur nefndur ráðherra því starfi sem hann gegndi í fyrra, líklega hinn eini sem fékk að sitja á hálfum stól hinum sama og fyrir uppstokkunina innan ríkisstjórnarinnar á dögunum. Ég legg til, herra forseti, að þessari till. verði, eftir að umræðu hefur verið frestað, vísað til nefndar og treysti forseta til að gera tillögu um nefnd í þessu sambandi. Mér er ekki í minni hvert við vísuðum þessu máli í fyrra, en ekki ætti að vefjast fyrir að fá úr því skorið.