09.12.1985
Efri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Hv. 8. landsk. þm. Kolbrún Jónsdóttir spurðist fyrir um hvað mundi gerast þegar virðisaukaskattur yrði tekinn upp. Það er að sjálfsögðu alveg ljóst að við þá aðgerð mun þessi endurgreiðsla hverfa. Hún mun koma af sjálfu sér í því skattkerfi því að þeir aðilar sem stunda útflutningsframleiðslu fá þá sjálfkrafa endurgreiddan allan þann virðisaukaskatt sem þeir greiða. Það er áformað að með því leggist endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti niður. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. að þessi uppsafnaði söluskattur rennur til útgerðar og sjómanna vegna þess mikla vanda sem flotinn hefur átt við að stríða á undanförnum árum. Það mun væntanlega lagast. Ég á von á að þetta geti fallið algerlega niður. Síðan verður að takast á um tekjuskiptinguna innbyrðis í sjávarútveginum.

Það má vissulega halda því fram að hér sé um óþarfatilfærslur að ræða og millifærslur, en ég bendi á að hér er um almennar reglur að ræða. Hér er borguð ákveðin prósenta ofan á fiskverð. Ef þessi greiðsla væri ekki fyrir hendi og þessi endurgreiðsla mundi renna til fiskvinnslunnar þyrfti fiskvinnslan væntanlega að borga hærra fiskverð.

Eins og hv. þm. er kunnugt er mikið tekjuskiptingarvandamál innan sjávarútvegsins milli sjómanna, útvegsmanna o.s.frv. Það er mjög viðkvæmt mál og m.a. er verið að fjalla um það í þeirri nefnd sem hv. 4. þm. Vesturl. vitnaði til áðan. Það er alveg rétt hjá honum að hraða þarf störfum nefndarinnar. Ég hef rætt það mál við formann nefndarinnar, sem er þessum vandamálum mjög kunnugur frá fyrri tíð, og það mun verða reynt að ljúka störfum nefndarinnar eins fljótt og hægt er, vænti ég. En hvort það tekst á þessu ári eða með vorinu get ég að sjálfsögðu ekkert fullyrt um. Eins og ég veit að hv. þm. er ekkert síður kunnugt um en mér er hér um mjög vandasamt mál að ræða. Það grípur inn í hlutaskipti og ýmis önnur viðkvæm atriði sem ávallt hefur verið erfitt að ná samkomulagi um.

En ég vil að lokum ítreka að með þessum greiðslum, sem voru teknar upp í ársbyrjun 1984, var lögð af greiðsla úr Aflatryggingasjóði vegna sérstakra erfiðleika sem var áður. Með því var verið að gera greiðslur úr Aflatryggingasjóði almennar. Menn gátu ekki fengið neinar sérstakar bætur úr þeim sjóði eins og áður var vegna aflabrests.

Ég vil ítreka að hér er um almennar greiðslur ofan á fiskverð að ræða sem er verið að reyna að draga verulega úr í því starfi sem nú fer fram í þeirri nefnd sem hv. þm. vitnaði til. Þar eiga sæti fulltrúar sem eru í sjútvn. á Alþingi og fulltrúar hagsmunaaðila. Það er sem sagt verið að vinna að því að draga úr þessum greiðslum. En það verður ekki gert með því að ákveða það mjög skyndilega ef slíkt á að gerast með einhverjum vitrænum hætti. Það verður að sjálfsögðu um það að fjalla til þess að verði ekki úr því meiri háttar átök innan sjávarútvegsins. Get ég vitnað þar til fyrri tilrauna sem hafa verið gerðar í þessu sambandi. Tókst, að því er mig minnir, að draga verulega úr þessum greiðslum með samkomulagi sem var gert sennilega veturinn 1978.