09.12.1985
Efri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Út af því að hér sé ekki um fjármuni skattborgara að ræða vildi ég aðeins hafa nokkra hluti á hreinu.

Það er að vísu satt að ef þú tekur skatt af aðila sem er í einhverri framleiðslu og afhendir hann öðrum aðila innan sömu framleiðslugreinar er alveg hægt að halda því fram að hér hafi bara verið færðir fjármunir milli aðila í sömu atvinnugrein. En til þess er náttúrlega kostað þó nokkurri fyrirhöfn að gera slíkt og það þarf enginn að segja manni að ekki kosti neitt að standa í þeim umsvifum sem það er að fylgjast með öllum þessum prósentum sem er verið að dreifa niður hingað og þangað með ýmiss konar hætti og á ýmiss konar tímabilum og á sumt og á sumt ekki, þannig að þó að hér sé, í orði kveðnu, um innbyrðis tilfærslur innan sjávarútvegs að ræða er það allt annar aðili heldur en þeir sem að því stendur og hann dregur örugglega þó nokkuð til sín af tilkostnaði.

Sú gamla grundvallarhugmynd, sem menn byrjuðu að ræða og reyndu að koma á þ.e. að viðskiptaaðilar í sjávarútvegi kæmu sér upp verðjöfnunarsjóði, er bara samningsatriði þeirra á milli og þeirra síðan að fjalla um það hvernig þeir nota hann eða beita honum. Ég er fyrst og fremst að gagnrýna afskipti ríkisvaldsins og afskipti ríkisvaldsins með þeim hætti sem hér opinberast, eins og hæstv. sjútvrh. var að nokkru leyti sammála, að er mjög flókinn og viðamikill og nauðsynlegt að afnema.