09.12.1985
Efri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hl. heilbr.- og trn. varðandi þetta mál. Ég skal reyna að fara eins fljótt yfir sögu og unnt er í þessu efni.

Ég held að frumskilyrði árangurs felist í því að við skoðum þetta mál allt sem hlutlægast og fordómalausast, að við vinnum að því í heild á þann veg að við gerum málinu gagn, gerum ekkert sem teflt gæti í tvísýnu því átaki sem þarf að vinna einhuga að. Ég skal því forðast að efna til deilna um þau efnisatriði sem við gátum ekki orðið einhuga um heldur aðeins gera á eins hlutlausan hátt og unnt er grein fyrir áliti mínu, efasemdum og rökum fyrir þeim.

Það er rétt að þetta mál hefur verið alllengi til umfjöllunar í nefnd enda ekki að ástæðulausu. Málið er viðkvæmt. Færustu aðilar, og þar á ég við læknastéttina alveg sérstaklega, eru hér ekki á einu máli. Við skulum einnig gæta þess að í öðrum þjóðlöndum okkur nálægum er heldur ekki eins tekið á þessum málum, þannig að í þessu er ekkert sjálfgefið, ekkert sjálfsagt. Ég hef viljað skoða þetta mál út frá því sjónarmiði einu hvað helst mætti hér til heilla verða, hvort þetta væri árangursrík leið að því marki að ná betur valdi á forvörnum og öðru starfi í kringum þennan vágest. Niðurstaðan kemur fram í nefndaráliti frá mér þar sem ég treystist ekki til að styðja frv. óbreytt á þessu stigi. Ég hef ekki látið sannfærast um það að gagnsemi þessarar lagasetningar verði meiri en hugsanleg skaðsemi eða fæling ýmissa hópa af laganna völdum.

Ég ætla, eins og ég sagði áðan, ekki að hafa uppi langt mál. Ég hygg að við séum öll sammála um að einskis megi láta ófreistað að ná sem bestum tökum á þessu máli öllu, á sjúkdómi þessum í heild sinni, og það munum við áreiðanlega öll áfram gera þó við séum ekki hér samferða við afgreiðslu þessa máls.

Um leið og ég vitna í nál. mitt, sem ég legg fram í þessu máli, bendi ég á það að með því er fskj. frá samstarfsnefnd Landspítala og Borgarspítala um varnir gegn alnæmi sem hv. formaður nefndarinnar hefur gert hér allmikil og góð skil. Ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að lesa þetta nál. Það er stutt:

„Nefndin hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt en undirritaður telur að betur þurfi að huga að ýmsu áður en til afgreiðslu kemur og vísar í því efni alveg sérstaklega til álits samstarfsnefndar Landspítala og Borgarspítala um varnir gegn alnæmi sem birt er hér sem fylgiskjal.

Undirritaður leggur megináherslu á virkar aðgerðir gegn þessum sjúkdómi og útbreiðslu hans en er ekki sannfærður um að lagasetning af þessu tagi sé brýnust alls í þessu efni.

Rannsóknaraðstöðu alla þarf að stórbæta og að því mun unnið. Upplýsingaflæði þarf að auka mjög, svo og alla fræðslu tengda þessum sjúkdómi. Heilsugæslu okkar þarf að efla sem allra best til að takast á við þetta válega vandamál og virkja heilbrigðisstéttir okkar, svo og alla aðra, á þann veg að sem best takist að sporna hér á móti.

Huga þarf að heildarendurskoðun laga um bráða smitsjúkdóma og fella þau inn í heildstæða löggjöf í takt við nútímaviðhorf og aðstæður.

Allt þetta er unnt að gera þó að þetta frv. verði ekki samþykkt og í ljósi viðvarana í álifi samstarfsnefndarinnar treystir undirritaður sér ekki til að styðja frv. á þessu stigi málsins.“

Í bréfi samstarfsnefndarinnar, sem okkur barst allsnemma í okkar nefndarstarfi, og sem ég óskaði sérstaklega eftir að við fengjum álit frá, segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Samstarfsnefndin varar eindregið við því að ónæmistæring verði á þessu stigi sett undir ákvæði umræddra laga án þess að þeim verði breytt að öðru leyti.

Þótt eðlilegt sé að skilgreina ónæmistæringu læknisfræðilega sem kynsjúkdóm vegna þess að smitun verður nær einvörðungu við kynmök eða blóðblöndun er þessi sýking að öðru leyti afgerandi frábrugðin þeim sem nú falla undir kynsjúkdómalögin. Aðrir kynsjúkdómar hafa venjulega í för með sér einkenni sem reka sjúklingana á fund lækna og þá er í langflestum tilfellum hægt að lækna þannig að sjúklingurinn og þeir, sem hann hefur haft kynmök við, hætta að vera smitberar. Hins vegar eru 90% þeirra, sem smitast hafa af ónæmistæringarveirunni, einkennalausir og þessum sjúklingum stendur ekki til boða nein lækning sem kemur í veg fyrir að þeir smiti aðra.

Eins og málin standa í dag er erfitt að sjá hvernig ákvæði laga um kynsjúkdómavarnir geti stuðlað að takmörkun á útbreiðslu ónæmistæringar. Hins vegar eru verulegar líkur á því að þau geti fælt smitaða einstaklinga frá því að leita læknis. Í flestum tilvikum mun það verða ábyrgðartilfinning en ekki lagaákvæði sem mun ráða úrslitum um það hvort hlutaðeigandi gefa sig fram. Þó þyrftu að vera til lagaákvæði í þessu sambandi sem taka sérstaklega til þeirra er hafa takmarkaða dómgreind eða skerta ábyrgðartilfinningu vegna persónuleikagalla eða langvarandi neyslu vímuefna.

Eina raunhæfa aðgerðin á þessu stigi til að takmarka útbreiðslu veirunnar er að finna sem flesta þá einstaklinga, sem þegar hafa smitast, og hjálpa þeim með öllum tiltækum ráðum til að forðast að smita aðra. Skipulagðar aðgerðir í þessa átt hafa nýlega hafist hér á landi og er mikilvægt að tími gefist til þess að meta hvernig þær reynast. Einstaklingum, sem óttast að þeir hafi smitast, er gefinn kostur á upplýsingum og rannsókn og hefur verið mikil ásókn í þessa þjónustu. Það er eindregin skoðun þeirra, sem hafa annast þessa þjónustu, að það muni geta torveldað varnarráðstafanir gegn ónæmistæringu ef sjúkdómurinn verður á þessu stigi settur undir kynsjúkdómalögin eins og þau eru nú. Tæknileg atriði, eins og greiðslu á kostnaði vegna þessarar þjónustu og skráningu sýktra, ætti að vera auðvelt að leysa á annan hátt.

Samstarfsnefndin leggur til að lög um farsóttir og varnir gegn kynsjúkdómum verði endurskoðuð og m.a. rýmkuð þannig að heilbrigðisyfirvöld geti gripið til aðgerða með reglugerðarsetningu eftir því sem við á hverju sinni.

Virðingarfyllst,

f.h. samstarfsnefndar Landspítala og Borgarspítala

um varnir gegn ónæmistæringu,

Helgi Valdimarsson.“

Það skal tekið fram alveg sérstaklega í þessu sambandi að í formála þessa bréfs, þar sem getið er um hvaða læknar eigi sæti í nefndinni, er greint frá því að Haraldur Briem muni skila séráliti en að öðru leyti séu allir nefndarmenn sammála um það sem ég hef nú lesið.

Ég vil, vegna þess að ég minntist á sérálit Haralds Briem og að því var einnig vikið hér áðan af hv. formanni heilbr.- og trn., benda á álit eða grg., sem til heilbr.- og trn. barst frá tveim læknum, eins og hann gat um, í samstarfsnefndinni um varnir gegn alnæmi. Eftir að hafa rakið kosti og ókosti lagasetningar segja þeir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Því er mikilvægt fyrir samfélagið að geta“ - og þá tek ég skýrt fram og undirstrika- „í undantekningartilvikum beitt varnaraðgerðum gegn óábyrgum einstaklingum sem kunna að hegða sér þannig að almannaheill sé ógnað, t.d. eiturlyfjaneytendum sem sprauta sig og einstaklingum sem vísvitandi útbreiða sjúkdóminn.

Enda þótt reynslan af lögunum um kynsjúkdómavarnir bendi ekki til þess að refsiákvæði laganna muni hafa veruleg áhrif í þá átt að fæla smitaða einstaklinga frá því að leita læknis er sú hætta fyrir hendi. Til þess að draga úr þessari hættu mætti orða refsiákvæði laganna þannig að fram kæmi að þeim yrði ekki beitt nema í ýtrustu neyð.“

Síðan segir: „Við leggjum einnig til að við skráningu sýktra einstaklinga verði notast við fæðingardag, mánuð og ár eða fæðingarmánuð og ár ásamt upphafsstöfum sjúklings en ekki fæðingarnúmer.

Við erum þannig hlynntir því að alnæmi falli undir lög um varnir gegn kynsjúkdómum ef breytingar verða gerðar á refsiákvæðum laganna og tilhögun á auðkennum sjúklings við skráningu, eins og áður greinir.“

Þetta segir í áliti þeirra læknanna Haralds Briem og Sigurðar Guðmundssonar.

Mér þykir það ekki mikið þó að ýmsar efasemdir komi upp í hugann þegar til þessa er vitnað. Og ég leyfi mér einnig að vitna í grein sem birtist í NT nú á laugardaginn eftir Guðna Baldursson, formann Samtakanna 78, þar sem hann varpar fram spurningunni: Ætla Íslendingar að gefast upp í baráttunni gegn ónæmistæringu? Ég ætla ekki að vitna mjög í þessa grein vegna þess að ég sé að hv. 2. minni hl. heilbr.- og trn. hefur tekið þetta upp sem nál. sitt í þskj. en get þó ekki stillt mig um það að fara yfir ákveðin atriði úr grein Guðna, með leyfi virðulegs forseta:

„Ef úr verður að smitun af ónæmistæringarveiru falli undir lögin um varnir gegn kynsjúkdómum óbreytt verður Ísland eina landið í veröldinni þar sem skráning smitaðra verður með slíkum hætti sem þar er kveðið á um. Hvergi annars staðar hefur það hvarflað að heilbrigðisyfirvöldum að það væri ráð til þess að stemma stigu við útbreiðslu ónæmistæringar að setja lög um skráningu nafna og um refsingar. Þvert á móti leggja þau áherslu á það að skráning komi ekki til greina, einmitt vegna þess að þau vita að annars yrði svo lítils árangurs að vænta.“

Og síðan segir í lok greinar Guðna Baldurssonar: „Ávinningur af fyrirhugaðri lagabreytingu er enginn og er þó með henni fórnað öllum möguleikum til þess að vinna bug á útbreiðslu ónæmistæringar. Það sýnir ótrúlegan skort á því að menn skilji viðfangsefni það sem hér er að fást við ef menn telja mikilvægara að eiga á blaði nöfn þeirra sem lúta í lægra haldi fyrir sjúkdómnum en að vinna bráðnauðsynlegt forvarnarstarf til þess að hefta útbreiðslu hans og kenna smituðum að lifa með honum svo að hann valdi þeim og öðrum sem minnstum skaða.“

Ég fullyrði ekkert um það sem segir í þessari grein. En hér er fjallað um þessa lagasetningu m.a. og sér í lagi út frá einum stærsta áhættuhópnum. Ég tel þessa grein, hvað sem menn vilja segja um einstök efnisatriði hennar, allrar athygli verða og þess vegna hef ég vitnað til þessara lokaorða. Ég held nefnilega að þessi orð ættu að vera okkur tilefni ærinna umþenkinga því að ég óttast að í þeim sé meiri sannleikur fólginn en svo að við getum horft fram hjá honum nú.

Þá vek ég sérstaka athygli á því, ég get ekki stillt mig um það, að í dag fengum við í heilbr.- og trn. bréf frá samstarfsnefnd Landspítala og Borgarspítala um varnir gegn ónæmistæringu, sem áréttar fyrri umsagnir varðandi þetta frv., þar sem allir nefndarmenn skrifa undir álit þar sem m.a. er talað um að ákvæðum um skráningu verði breytt þannig að einungis verði tilgreint kyn, fæðingarmánuður og ár smitaðra og í öðru lagi að hegningarákvæði laganna verði fellt niður. Og í lok þessa álits segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Við leggjum áherslu á að alnæmissmitun er afar flókið læknisfræðilegt vandamál sem hefur mun afdrifaríkari áhrif á líf þeirra er smitast heldur en þeir sjúkdómar sem nú falla undir lög um kynsjúkdóma.“ Undir þetta bréf skrifa Haraldur Briem, Helgi Valdimarsson, Jóhannes Bergsveinsson, Kristján Erlendsson, Sigurður Guðmundsson og Sigurður B. Þorsteinsson.

Þeim sem hefur þótt nefndin taka sér góðan tíma bendi ég á að nú í dag er meiri hluti nefndarinnar að flytja veigamikla brtt., sem ég að sjálfsögðu styð í því formi, brtt. um 1. gr. þessa máls. Þar er hvorki meira né minna en verið að fjalla um og breyta skilgreiningu þess sjúkdóms sem við erum að setja lög um nú á lokaafgreiðsludegi þessa máls hér, væntanlega, í þessari hv. deild, samkvæmt ábendingum sem við höfum fengið frá þessari samstarfsnefnd. Ég held að þetta sýni það að nefndin hafi ekki tekið sér of langan tíma við meðferð þessa máls, að nú er verið - og þykir nauðsynlegt - af öllum nefndarmönnum að breyta skilgreiningu þess sjúkdóms sem verið er að setja lög um.

En ég skal ekki efna til frekari deilna um þetta. Ég held að við eigum að forðast það svo sem við mögulega getum. Og í ljósi þessa hef ég svo sterkar efasemdir um þetta að í endanlegri mynd mun ég ekki geta greitt þessu frv. atkvæði.