09.12.1985
Efri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að segja fáein orð um það viðkvæma mál sem hér er á ferðinni. Ég tók til máls við 1. umr. þess en á hins vegar ekki sæti í hv. heilbr.- og trn. og hef því ekki getað fylgst með málinu þar. Ég vil þó taka það skýrt fram að formaður hv. heilbr.- og trn. hefur boðið mér sæti í nefndinni til að fylgjast með þessu máli og ég harma það að sökum anna hef ég ekki getað bætt þeim nefndarstörfum ofan á önnur nefndarstörf sem ég hef með höndum hér í þinginu. M.a. þess vegna rak mig í rogastans þegar ég sá hér í upphafi deildarfundar áðan það fskj. sem er prentað með nál. á þskj. 201 og undirritað er af Helga Valdimarssyni prófessor, fyrir hönd samstarfsnefndar Landspítala og Borgarspítala um varnir gegn ónæmistæringu.

Við 1. umr. þessa máls spurði ég hæstv. heilbr.- og trmrh. að því hvort samstarfsnefnd þessi hefði verið höfð með í ráðum þegar þetta frv. var samið. Svaraði hún því þá játandi. Hins vegar kemur annað fram í nál. samstarfsnefndarinnar og nú vitna ég til álitsins, með leyfi forseta:

„Samstarfsnefndin varar eindregið við því að ónæmistæring verði á þessu stigi sett undir ákvæði umræddra laga án þess að þeim verði breytt að öðru leyti.“ Þannig er ljóst að þessi nefnd hefur varla verið höfð með í ráðum þegar frv. var samið.

Það sem er þó einkum umhugsunarvert í þessu sambandi eru þau mörgu rök sem fram koma í þessu fskj. nefndarálitsins gegn því að hafa þau lög, sem hér um ræðir, á þann veg sem lagt er til í frv. Ef ég má vitna af handahófi í þetta fylgiskjal, sem hv. þm. Helgi Seljan las reyndar í heild sinni áðan, stendur þar, með leyfi forseta:

„Eins og málin standa í dag er erfitt að sjá hvernig ákvæði laga um kynsjúkdómavarnir geti stuðlað að takmörkun á útbreiðslu ónæmistæringar. Hins vegar eru verulegar líkur á því að þau geti fælt smitaða einstaklinga frá því að leita læknis.“ Aðeins síðar segir:

„Eina raunhæfa aðgerðin á þessu stigi til að takmarka útbreiðslu veirunnar er að finna sem flesta þá einstaklinga, sem þegar hafa smitast, og hjálpa þeim með öllum tiltækum ráðum.“ Enn fremur segir aðeins síðar: „Það er eindregin skoðun þeirra sem hafa annast þessa þjónustu að það muni geta torveldað varnarráðstafanir gegn ónæmistæringu ef sjúkdómurinn verður á þessu stigi settur undir kynsjúkdómalögin eins og þau eru nú.“

Það er mér mikið umhugsunarefni að þessum varnaðarorðum skuli meiri hl. hv. heilbr.- og trn. ekki hafa sinnt. Á hinn bóginn er það mér gleðiefni að hér birtist í upphafi þingfundar brtt. frá meiri hl. heilbr.- og trn. sem tekur tillit til tillögu sem gerð er í bréfi frá umræddum samstarfshópi til formanns nefndarinnar og dagsett er í dag. Það er sú brtt. sem er á þskj. 214. Þessi brtt. gjörbreytir því máli sem við erum hér að fást við þar sem, eins og segir í bréfi frá samstarfsnefndinni sem dagsett er í dag, frv. á einungis við um þann hluta smitbera sem fengið hafa verulega ónæmisbilun af völdum veirunnar.

Mig langar til þess að biðja hv. formann heilbr.- og trn. Ed. að staðfesta hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að á þann veg eigi það frv. sem hér er til umræðu, fyrst og fremst, og í raun eingöngu, við þá einstaklinga sem hafa sýnileg einkenni sjúkdómsins alnæmis. Sé svo er hér um mikla breytingu til bóta að ræða og ég mun hiklaust styðja þessa brtt.

Önnur brtt., sem gerð er í þessu bréfi samstarfsnefndarinnar, er að ákvæðum um skráningu verði breytt í frv. þannig að einungis verði tilgreint kyn, fæðingarmánuður og ár smitaðra. Ég held að hér hljóti að vera um skynsamlega tillögu að ræða vegna þess að meginatriði forvarnarstarfs gegn þessum sjúkdómi er að ná til smitaðra einstaklinga. Þegar skráningin er á þann veg að auðveldlega má auðkenna hver maðurinn er, þá er málið orðið mjög erfitt viðfangs í okkar litla þjóðfélagi þar sem allir búa í nábýli hver við annan. Þar með er orðin hætta á því að stór hluti áhættuhópsins gefi sig ekki fram. Þar vil ég einkum nefna „bisexual“ einstaklinga sem lifa t.d. því sem kallað er venjulegu fjölskyldulífi og kynlífi en stunda annars konar kynlíf utan þess. Það er hætt við því að þessi áhættuhópur komi ekki til rannsóknar ef ákvæði laganna eru á þann veg að auðveldlega megi auðkenna þá sem í hlut eiga, en eins og ég sagði áðan er það nauðsynlegt, eigi forvarnarstarfið að bera árangur.

Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir nefndi áðan að til greina kæmi að upphafsstafir læknis kæmu í skráningu í stað fæðingarnúmers og sýnist mér það álíka góð tillaga þar sem það tryggir einnig nafnleynd þess sem í hlut á sem er mikið nauðsynjamál í öllu forvarnarstarfi varðandi þennan sjúkdóm.

Þriðja tillagan frá samstarfshópnum í bréfinu frá því í dag er sú að hegningarákvæði laganna verði fellt niður. Hv. formaður heilbr.- og trn. taldi það ógerlegt vegna þess að þá mundu hegningarákvæði falla niður um alla aðra sjúkdóma sem þessi lög ná til. Ég hef trú á að það sé tæknilega hægt að undanskilja þá sem smitast af HTLV3-veirunni í því efni. Ég vil einnig benda á að samkvæmt áliti lögfróðra manna, og vil ég þá nefna prófessor Jónatan Þórmundsson meðal annarra, nær 175. gr. hegningarlaganna til þess sem í frv. er verið að reyna að gera þannig að hegningarákvæði ættu að vera óþörf.

175. gr. hegningarlaganna hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hver sem veldur hættu á því að næmur sjúkdómur komi upp eða berist út meðal manna með því að brjóta gegn lagafyrirmælum um varnir gegn næmum sjúkdómum eða varúðarreglum yfirvalda, sem þar að lúta, skal sæta varðhaldi eða fangelsi allt að þremur árum. Refsingin getur þó orðið fangelsi allt að sex árum ef um sjúkdóm er að ræða sem hið opinbera hefur gert sérstakar ráðstafanir til að hefta eða afstýra að berist hingað til lands.“

Ég er ekki að leggja mat á ákvæði þessara laga. Ég er aðeins að benda á að í lögum landsins er slíkt ákvæði og því má ætla að ónauðsynlegt sé að hafa það í þeim lögum sem hér um ræðir varðandi þann sjúkdóm sem hér er til umræðu.

Ég tek þau rök gild sem birtast sem fylgiskjal með nál. á bls. 201. Þess vegna hefði ég helst viljað sjá þessu frv. vísað frá með rökstuddri dagskrá og hinkrað yrði enn um sinn eftir að setja lög um þessi mál þar til, eins og mælst er til í áðurgreindu fylgiskjali með nál. 1. minni hl. heilbr.- og trn., að tími hefur gefist til að meta hvernig skipulagðar aðgerðir í þessu efni hafa reynst og því hægt að setja löggjöf á grundvelli fenginnar reynslu.

Ég tek aftur fram að ég tel brtt. á þskj. 214 til bóta. Ég mun greiða henni atkvæði mitt, en frv. mun ég ekki greiða atkvæði mitt.