09.12.1985
Efri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Frsm. meiri hl. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Ég hafði í rauninni ekki ætlað mér að taka frekari þátt í þessari umræðu, en hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir beindi til mín spurningu varðandi 1. lið í tillögum samstarfsnefndar Landspítalans og Borgarspítalans. Það er tillaga sem kynnt var af þeirra hálfu í bréfi dags. 9. des. 1985.

Ég vil, með leyfi virðulegs forseta, lesa aftur athugasemdina og ábendinguna um þetta atriði eins og hún kemur fram í umsögn nefndarinnar, en þar stendur:

„Miðað verði í 1. gr. laganna við smitun af HTLV3-veirunni fremur en alnæmi sem einungis á við þann hluta smitbera sem fengið hafa verulega ónæmisbilun af völdum veirunnar.“

Í stað alnæmis í fyrirliggjandi frv. þarf því að koma, eins og hér stendur, smitun af HTLV3-veiru.

Að minni hyggju felur tillagan í sér að hér sé átt við smitaða einstaklinga, þ. e. ákvæðin eru þrengri og skýrari með tilliti til nafngiftarinnar en var lagt til. Það er augljóst að heiti sjúkdómsins, eins og hann er skilgreindur í fyrirliggjandi frv., á við sjúkdóminn, samkvæmt orðabókaskýringum, á efra stigi en hér er lagt til að nafngiftin hljóði um. Mér finnst þetta koma nokkuð skýrt fram í bréfi nefndarinnar.

Varðandi hugleiðingar hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur um hegningarákvæði laganna ætla ég ekki að hafa mörg orð. Hv. þm. vitnaði til þess sem ég hafði sagt, þ.e. að það væri erfiðleikum bundið að hafa tvenns konar hegningarákvæði, ef svo má segja, í sömu lögum. Jú, líklega er það rétt að ég hafi vikið að þessu, en ég vék jafnframt að því hvort ástæða er til að hafa mildari refsiákvæði eða jafnvel engin gagnvart fyrirbærum í samfélaginu sem eru þó alltént talin verulega hættumeiri en önnur atriði í umræddum lögum.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, virðulegi forseti.