09.12.1985
Neðri deild: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

169. mál, tollskrá

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um tollskrá. Þetta mál er 169. mál og er birt á þskj. 189.

Frv. felur í sér framlengingu á svonefndu jöfnunarálagi er lagt er á innflutt hús og húshluta. Jöfnunarálag á innflutt hús og húshluta var upphaflega lagt á 1982 samkvæmt heimild í lögum nr. 83 frá 1981. Tilgangurinn með álagningu gjaldsins var að rétta hlut innlendrar húsagerðar gagnvart aukinni samkeppni erlendis frá sem til var komin fyrst og fremst vegna tollfrjáls innflutnings á vörum frá EFTA og Evrópubandalaginu.

Í innlendri framleiðslu þessara vara verður uppsöfnun ýmissa gjalda sem lögð eru á ýmsar byggingarvörur, en þessar sömu byggingarvörur njóta hins vegar tollfrelsis við innflutning þegar þær eru fluttar inn sem hluti fullbúins húss eða húshluta. Til að eyða uppsöfnunaráhrifum þessum og jafna þar með samkeppnisstöðu innlends byggingariðnaðar hefur 12% jöfnunarálag almennt verið lagt á innflutt hús og húshluta með þeirri undantekningu að 6% jöfnunarálag hefur verið lagt á innflutt stálgrindahús. Fyrirhugað var að fella tolla almennt niður af byggingarvörum samkvæmt tollskrárlögum og eyða að öðru leyti að mestu nefndum uppsöfnunaráhrifum með breytingum á sérstöku vörugjaldi. Frá þessum breytingaráformum í skattkerfinu hefur hins vegar verið horfið fyrst um sinn og mun því áfram gæta neikvæðra áhrifa nefndrar uppsöfnunar í innlendri húsagerð sem leysa verður. Er því lagt til að nefnd heimild til álagningar jöfunarálags á innflutt hús og húshluta verði framlengd um eitt ár eða til ársloka 1986. Æskilegast er þó að á þessu máli verði fundin lausn til frambúðar og er það von ríkisstjórnarinnar að heildarendurskoðun tekjuöflunarkerfis ríkissjóðs, þar á meðal tollkerfisins, muni leiða til varanlegrar lausnar á þessu máli.

Ég vildi bera fram þá ósk að hraða mætti framgangi þessa máls þannig að ljúka mætti meðferð þess á hinu háa Alþingi fyrir jólaleyfi þm., en legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.