10.12.1985
Sameinað þing: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég sé ekki betur en þingflokkur Alþb. geti mjög einfaldlega leyst þetta mál. Þeir hafa óskað eftir umræðum utan dagskrár um viðskipti Hafskips og Útvegsbankans sem eiga að hefjast núna kl. 15. Það mál er komið á dagskrá þingsins og um það verður útvarpsumræða á fimmtudagskvöldið. Það mundi rýmka verulega fyrir þingstörfum ef Alþýðubandalagsmenn féllu frá þessari utandagskrárumræðu sinni núna til þess m.a. að greiða fyrir sínum eigin málum og framgangi þeirra hér á hinu háa Alþingi. Ég sé ekki betur en þetta gæti verið nokkuð góð lausn á málinu þar sem búið er að ákveða útvarpsumræðu um stöðu Hafskips og viðskipti Hafskips og Útvegsbankans. Ég held að þetta gæti leyst málið, herra forseti.