10.12.1985
Sameinað þing: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel að hér sé í rauninni verið að blanda saman óskyldum málum þar sem eru umræður um Hafskipsmál og hins vegar afstöðu til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar.

Mér er það ljóst sem öðrum hv. þm. að annir eru á Alþingi þó að þingstörfum hefði mátt haga betur af hálfu hæstv. ríkisstj. á liðnum vikum, en þá stefnir í það að hér verði mikla annir. Mér er því ljóst að það þarf góðan vilja til þess að fá afgreiðslu á þeim málum sem varða afstöðu Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar áður en atkvæði falla á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ég er einfaldlega að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta að hann kanni það og stuðli að því í samvinnu við formenn þingflokka að umræða um þessi efni geti farið fram og afgreiðsla liggi hér fyrir áður en nefnd atkvæðagreiðsla fer fram hjá Sameinuðu þjóðunum.

Ég trúi ekki öðru en hæstv. ríkisstj. hafi einnig áhuga á því að línur skýrist og verði skýrari í þessu efni áður en sú atkvæðagreiðsla fer fram og ég vil inna hæstv. forsrh. eftir því hvort hann vilji ekki stuðla að því fyrir sitt leyti að till. á þskj. 225 um afstöðu Íslands í þessu efni fái þinglega meðferð á næstu sólarhringum þannig að vilji þingsins í þessu efni liggi skýrt fyrir.