10.12.1985
Sameinað þing: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

157. mál, lánsfjárfyrirheit vegna kaupa á togaranum Má

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 172 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. forsrh. um lánsfjárfyrirheit vegna kaupa á togaranum Má. Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hefur verið staðið við loforð um fjármagnsfyrirgreiðslu sem ríkisstj. gaf þegar togarinn Már var keyptur til Ólafsvíkur?"

Nú er mér ljóst að það var ekki þessi hæstv. ríkisstj. sem þá sat að völdum, en ríkisstjórn Íslands var það engu að síður. Það var svo í apríl 1980, þegar þessi togari kom til landsins, að hann var talinn tiltölulega ódýrt skip miðað við innlenda skipasmíði, en nú er löngu svo komið að skuldir skipsins hafa reynst langt umfram eignir og þessi togari einn af mörgum sem lent hafa undir uppboðshamrinum.

En tilefni fsp. minnar er að þegar gengið var frá kaupum á togaranum var gefin út sameiginleg yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands og stjórnar Útvers sem er eigandi togarans. Þetta var 21. des. 1978. Þá var gert ráð fyrir 67% láni úr Fiskveiðasjóði Íslands. En þegar til átti að taka fékkst einungis 50% lán. Þá var enn fremur gert ráð fyrir láni úr Byggðasjóði sem fékkst ekki.

Mér þykir þess vegna ýmislegt benda til að ekki hafi verið staðið við þau loforð um fjármagnsfyrirgreiðslu sem gefin voru þegar togarinn var keyptur og því er þessi fsp. sett fram.