10.12.1985
Sameinað þing: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

157. mál, lánsfjárfyrirheit vegna kaupa á togaranum Má

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. sagði. Þetta var út af fyrir sig ekki mál þessarar ríkisstj. og reyndar hygg ég að það megi segja að þetta sé mál tveggja ríkisstjórna á undan þessari.

Þetta mál á nokkuð langan aðdraganda. Ég hef látið fara í gegnum allar fundargerðir ríkisstjórnarinnar og kanna hvaða loforð hafa verið veitt. Þetta er of langt mál til að rekja það í smáatriðum, en ég vil þó geta þess að þetta mál kemur fyrst á fund ríkisstjórnarinnar þriðjudaginn 25. apríl 1978. Er því þá hreyft þar í tengslum við viðskiptasamning sem er í undirbúningi við Portúgala, en Portúgalar höfðu lagt á það ríka áherslu að um gagnkvæm viðskipti yrði að ræða og alveg sérstaklega óskað eftir því að skoðað yrði að þar yrðu smíðaðir tveir togarar.

Sjútvrh. og viðskrh. í þeirri ríkisstjórn skoðuðu það mál vandlega og til að gera langt mál stutt varð niðurstaðan sú að samið var um smíði tveggja togara. Í því sambandi voru tvö fyrirtæki nefnd, þ.e. Samherji hf. í Grindavík.og Hraðfrystistöðin í Reykjavík. Samningar þessara fyrirtækja við skipasmíðastöðvar í Portúgal voru samþykktar með ákveðnum fyrirvara um eiginfjárútvegun. Síðar kom í ljós að ekki reyndist unnt fyrir fyrirtækin að útvega það fé og varð þá niðurstaðan sú að ríkissjóður gekk í ábyrgð fyrir kaupum á þessum tveimur togurum. Þessi tvö fyrirtæki féllu síðan út úr myndinni og var þá leitað að nýjum kaupendum. Niðurstaðan varð sú, eins og kemur fram í þessum fundargerðum, að kaupendur voru ákveðnir Bæjarútgerð Reykjavíkur og fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtæki á Snæfellsnesi.

Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að lánareglur Fiskveiðasjóðs og Byggðasjóðs, þegar þetta mál hófst og nokkuð lengi meðan það var í meðferð ríkisstjórnarinnar, voru, eins og hann rakti, að Fiskveiðasjóður lánaði 67% kaupverðs og Byggðasjóður 5% og reyndar í sumum tilfellum 10% þegar um sérstakt byggðavandamál var að ræða og reyndar þá byggt innanlands.

Á þessu verða síðan á meðan á meðferð málsins stendur hjá ríkisstjórninni breytingar, eins og kemur fram í minnisblaði til þáverandi sjútvrh. Matthíasar Bjarnasonar frá 21. ágúst 1978, þegar Fiskveiðasjóður dregur úr lánveitingu sinni til kaupa á fiskiskipum erlendis.

Ég hygg því að í upphaflegum samningum og viðræðum um þessa togara hafi verið gert ráð fyrir þeirri lánveitingu sem hv. fyrirspyrjandi nefndi í sinni ræðu. Mér er hins vegar ekki ljóst, og það kemur ekki nógu greinilega fram af þessum skjölum hér, hvort þeir sem síðastir urðu til að kaupa þessi skip hafi getað gengið út frá því sem öruggu að Fiskveiðasjóður lánaði 67% kaupverðs.

Lokaafgreiðslurnar í ríkisstjórninni koma fram í fundargerð ríkisstjórnarinnar frá 9. apríl 1980. Þá situr önnur ríkisstjórn. Þar er bókað svo, með leyfi forseta:

"Sjútvrh. lagði til að lánsfjárfyrirgreiðsla vegna togaranna tveggja, sem smíði er að ljúka á í Portúgal, verði með þeim hætti að Fiskveiðasjóður láni 50% kaupverðs og veitt verði ríkisábyrgð á 30% kaupverðs.“

Þessa till, leggur þáverandi sjútvrh. fyrir ríkisstjórnina.

Síðan kemur þetta að nýju til meðferðar í ríkisstjórninni 20. okt. 1981. Þar er bókað, með leyfi forseta: "Forsrh. skýrði frá erindi Útvers hf. í Ólafsvík um aukna fjármagnsfyrirgreiðslu vegna togarans Más. Málið rætt og verður athugað nánar.“

Síðan er þetta rætt á nokkrum næstu fundum. Í bókun þriðjudaginn 3. nóv. 1981 segir:

„Viðskrh. lagði til að fyrirtækinu væri gefinn kostur á að taka lán með ríkisábyrgð fyrir því sem á skorti að lánveiting Fiskveiðasjóðs næmi 80% smíðaverðs.“ Mér var vel kunnugt um það á þessum tíma, þar sem ég gegndi starfi sjútvrh., að sú skoðun var tvímælalaus hjá kaupendum þessara skipa, sérstaklega þeim á Snæfellsnesinu, að þeir hefðu haft vilyrði fyrir 67% kaupverðs úr Fiskveiðasjóði. Það finnst hins vegar hvergi skjalfest í fundargerðum ríkisstj. og það mál var þá reynt að leysa með því að veita ríkisábyrgð fyrir því sem á vantaði, eins og komið hefur fram af þessu sem ég hef lesið.