10.12.1985
Sameinað þing: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

157. mál, lánsfjárfyrirheit vegna kaupa á togaranum Má

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans. Það er deginum ljósara og kom mjög skýrt fram í máli hans að þær forsendur, sem kaupendur þessa skips gengu út frá þegar þeir ákváðu kaupin, stóðust ekki. Hvers vegna skal hér ósagt látið. En þegar ríkisstjórn Íslands og þetta fyrirtæki standa sameiginlega að yfirlýsingu þegar gengið er frá kaupum á togaranum þá eru forsendur allt aðrar og þær breytast svo enn seinna. Það er því alveg ljóst að þeir sem tókust þarna á hendur skuldbindingar höfðu ástæðu til að ætla að lánafyrirgreiðslan yrði önnur heldur en hún raunverulega varð.

Það er rétt sem hæstv. forsrh. sagði að lagt var verulegt kapp á það að við Íslendingar keyptum togara frá Portúgal til að greiða fyrir viðskiptum milli landanna. En hér hefur tekist heldur ólánlega til þar eð ekki hefur verið staðið við gefin fyrirheit. Mér finnst ástæða til að sú staðreynd sé höfð í huga nú þegar verið er að fjalla um eignarhald á þessu skipi og fleirum og stendur til að bjóða þau upp að nýju. Hins vegar væri fróðlegt í þessari umræðu að heyra skoðanir hæstv. félmrh. á þessu máli sem mjög kom við sögu þegar þetta skip var keypt sem fulltrúi heimamanna í Ólafsvík.

En mér sýnist það alveg ljóst, hvort sem menn kalla það yfirlýsingar, loforð, vilyrði eða fyrirheit, að við þetta var ekki staðið og þetta þróaðist ekki eins og þeir sem skipið keyptu, heimamenn á utanverðu Snæfellsnesi, höfðu ríka ástæðu til að ætla og töldu sig sjálfsagt geta treyst, þar sem ríkisstj. átti í hlut annars vegar.