10.12.1985
Sameinað þing: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

129. mál, kostnaður við Bakkafjarðarhöfn

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Heildarkostnaður við framkvæmdir á árinu 1982-1985 við Bakkafjarðarhöfn er orðinn 45 millj. 9 þús. kr. Ef kostnaði þessum er skipt niður á ár og hann síðan framreiknaður til verðlags í dag í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu þá er niðurstaðan sem hér segir:

1982: 514 þús. kr. Kostnaður á núverandi verðlagi: 1529 þús. kr.

1983: 10 millj. 230 þús. kr. Kostnaður á núverandi verðlagi: 15 millj. 723 þús. kr.

1984: 19 millj. 165 þús. kr. Kostnaður á núverandi verðlagi: 26 millj. 761 þús. kr.

og á þessu ári: 15 millj. 100 þús. kr. Kostnaður á núverandi verðlagi: 16 millj. 9 þús. kr.

Samtals er kostnaður á verðlagi hvers árs 45 millj. 9 þús. kr. en á framreiknuðu verði, eða núverandi verðlagi, 60 millj. 22 þús. kr.

Framkvæmdirnar hafa verið fjármagnaðar sem hér segir:

Fjárveitingar úr ríkissjóði: 24 millj. 604 þús. kr.

Lán út á ríkishluta: 15 millj. 200 þús. kr.

Styrkir úr Hafnarbótasjóði: 3 millj. 500 þús. kr.

Styrkir úr Byggðasjóði: 1 millj. 600 þús. kr.

Með fjárveitingum eru hér taldar þær „aukafjárveitingar“ að upphæð 8 millj. 900 þús. kr. er komu úr ríkissjóði á s.l. sumri.

Tvö lán hafa verið tekin til framkvæmdanna og eru eftirstöðvar þeirra, eins og að framan greinir, 15 millj. 200 þús..kr. á lántökugengi. Lánin eru:

Tekið 1983: DEM 862 424, það eru 9 millj. kr. og eftirstöðvar 7,2; lánstími 10 ár; endurgreiðsla 1984-1993; vextir 11%.

Í öðru lagi tekið lán 1985: Vísitölulán vísit. 1006, 8 millj., lánstími 2 ár; endurgreiðsla 1986 og 1987; vextir 6,25 % .

Eftirstöðvar þessara lána á gengi/vísitölu 1. nóvember s.l. nema samtals 21 millj. 272 þús. kr.

Hvað varðar frekari framkvæmdir þá liggur fyrir ósk hreppsnefndar Skeggjastaðahrepps um að byggð verði 15-20 m löng bryggja innan á brimvarnargarðinn og að hafnarsvæðið verði lýst upp. Bryggjan er hugsuð sem löndunarbryggja en ætlunin er að bátarnir verði eftir sem áður geymdir við legufæri innan við garðinn. Áætlaður kostnaður við þessar framkvæmdir er um 4 millj. kr. Frekari framkvæmdir eru ekki á döfinni að því er ég best veit.