10.12.1985
Sameinað þing: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

129. mál, kostnaður við Bakkafjarðarhöfn

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Nú er það að sjálfsögðu svo að öll viljum við gjarnan hafa góðar hafnir sem víðast, en ég minni á það í þessu sambandi að ákvörðunin um þessa hafnargerð varð til með ákaflega sérstæðum hætti. Hún gerðist í rauninni þannig, að Framkvæmdastofnun tók ákvörðun um að lána til þessara framkvæmda áður en Alþingi hafði veitt fé til þeirra og þannig veitt samþykki sitt. 60 millj. kr. eru verulegir fjármunir.

Ég held að heildarframlag ríkisins til hafnarmála á s.l. fjárlögum hafi verið um 70 millj. kr. Það hlýtur að vera hlutverk alþm. hverju sinni að gera upp hug sinn um það hvernig þeim fjármunum sé best varið. Og menn hljóta að spyrja sig þeirra spurninga þegar hér er talað um heildarframkvæmdir upp á a.m.k. 65 millj. kr. hvort ekki hefði komið til álita og verið skynsamlegra að velja hér ódýrari lausnir og eiga kannske 60 millj. meira til úthlutunar annars staðar í þjóðfélaginu, til hafnarbóta annars staðar. Á þetta vil ég benda.

Annars er mér reyndar kunnugt um það að framkvæmdir hafa gengið mjög brösótt á þessum stað, en það skiptir ekki meginmáli.

Ég þakka svo ráðherra fyrir svörin.