10.12.1985
Sameinað þing: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

129. mál, kostnaður við Bakkafjarðarhöfn

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að framkvæmdir hafa gengið hálfbrösótt og það er nú einmitt þess vegna sem framkvæmdaupphæðin hefur hækkað verulega. Hins vegar lagði ég áherslu á það að deila á milli hafnamálastjórnar og verksala yrði leyst án þess að fara í gerðardóm með því að fá óvilhallan mann til þess að fara yfir þau mál, heldur en að standa í gerðardómi, mjög dýrum, lengri tíma þannig að það liggja fyrir allar upphæðir til þessara framkvæmda.

Það er líka rétt að upprunaleg ákvörðun var tekin um að bjóða fram lánveitingu frá Byggðasjóði - eða Framkvæmdastofnun ríkisins, Byggðasjóði - á sínum tíma sem Alþingi féllst á með sínum fjárveitingum, svo að farið hefur verið í þessa framkvæmd með eðlilegum ætti að öðru leyti. Hins vegar var talið á sínum tíma að hér væri um byggðamál að ræða sem réði úrslitum um það hvort byggð héldist á þessum stað eða ekki. Um það geta alltaf verið skiptar skoðanir í hvaða framkvæmdir á að leggja fjármuni hverju sinni, en þetta er ákvörðun sem var tekin af öðrum en mér. Hins vegar hefur það orðið mitt hlutskipti að reyna að halda því áfram þannig að ekki yrði ónýt sú framkvæmd sem var komin nokkuð á veg.